Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:08:33 (4965)

2001-02-26 17:08:33# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum alveg sammála, ég og hv. þm. Jón Kristjánsson, nákvæmlega um það hvað hefur falist í norræna vegabréfasambandinu, enda ekki skrýtið, báðir vanir menn. Það er hins vegar hæstv. utanrrh. sem hv. þm. Jón Kristjánsson hefði þurft að ræða þetta aðeins betur við. Það er hinn mikli sölumaður sem hefur haldið hér allar ræðurnar um norræna vegabréfasambandið. Þær hafa allar gengið út á þetta, mikilvægi þess að þurfa ekki að taka með sér vegabréf og það væri stórkostleg áföll í húfi ef við gerðumst ekki aðilar að Schengen og í gegnum það ásamt hinum Norðurlöndunum, varðveittum hið svokallaða norræna vegabréfasamband. Ég held að það sé fyrst og fremst kennslustund í því hvað norræna vegabréfasambandið hafi verið og hafi ekki verið sem þurfi að halda fyrir hæstv. utanrrh. en ekki hér.

Já, að við séum ekki að ganga í Evrópusambandið en séum að gerast þarna aðilar að frjálsri för. Mér finnst nú ósköp eðlilegt að hv. þm. Jón Kristjánsson reyni heldur dempa þá umræðu og auðvitað er ég ekki að halda því fram að við séum með þessu að ganga langleiðina inn í Evrópusambandið, það er ég ekki að gera. En ég hef leyft mér þann munað að draga að því athyglina að við erum með þessu að gerast aðilar að tveimur stofnunum, Evrópusambandsstofnunum. Það er í raun og veru það nýja í málinu. Við göngum eins langt í þær og við getum án þess þó að vera aðildarríki og okkur er ýtt til hliðar við ákvarðanatökuborðið þegar þar að kemur, en að öllu öðru leyti byggjum við á kerfi sem felur í sér að það eru Evrópusambandsstofnanirnar sem eru framkvæmdaraðilinn. Þetta var módel sem Evrópusambandið reyndi að fá upp í umræðunum með Evrópska efnahagssvæðið, en því var hafnað af hálfu EFTA-ríkjanna. Og til sögunnar kom tveggjastoðakerfið. Nú verða menn hins vegar að láta sér lynda að gerast þarna í rauninni aðilar að hinu evrópska stofnanakerfi að þessu leyti.