Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:12:23 (4967)

2001-02-26 17:12:23# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:12]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að menn hafi sjálfstraust, herra forseti, og treysti sér vel í þessum efnum. Auðvitað fagna ég öllum yfirlýsingum af þeim toga að menn séu ekki á leiðinni inn í Evrópusambandið og verði þær bara sem flestar. Þá er til nokkurs unnið að kynda upp þessa umræðu.

Aðeins í viðbót um norræna vegabréfasambandið. Fyrir mér hefur það alla tíð verið ósköp einfalt um hvað það hefur snúist. Það snýst um hin löngu sameiginlegu landamæri skandinavísku ríkjanna, hefur aldrei gert neitt annað. Það var einfaldlega praktísk og handhæg ráðstöfun að fella það niður að menn þyrftu að sýna vegabréf á meðan þeir voru að skreppa yfir á milli Svíþjóðar og Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, skjótast yfir að ná sér í danskan bjór eða skinku eða hvað það nú var. Gífurlega mikil dagsumferð yfir landamæri norrænu ríkjanna sem eiga löng sameiginleg landamæri, gerði það að verkum að þetta var praktískt fyrirkomulag. Það hefur aldrei haft stóra þýðingu í sjálfu sér fyrir Ísland, eyju langt úti í Atlantshafi, að þessu leytinu til. Það lá auðvitað alveg ljóst fyrir með sömu rökum að það skipti máli að Norðurlöndin, þ.e. að skandinavísku löndunum væri ekki skipt upp með Schengen-landamærum. Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni. Og það var hægt á tvo vegu. Annaðhvort að öll Norðurlöndin stæðu sameiginlega utan Schengen, eða a.m.k. þessi fjögur Norðurlönd, sérstaklega Noregur og Svíþjóð sem eiga þessi löngu sameiginlegu landamæri, eða að þau væru þá bæði með.

Staðreyndin er sú að Ísland gat í rauninni valið sér hvaða leið sem var í þessum efnum, af því að við höfum ekki sömu hagsmuni í þessu og hin Norðurlöndin hafa: Danmörk vegna landamæranna við Þýskaland og síðan Noregur og Svíþjóð, sérstaklega vegna hinna löngu sameiginlegu landamæra. Í reynd var það meira til þess að við vildum hafa samflot með hinum Norðurlöndunum sem þetta sneri að okkur að niðurstaðan þyrfti endilega að vera sú sama hvað okkur varðaði. Það hefðu að mínu mati verið full efni til að meta stöðu Íslands algjörlega sjálfstætt og óháð því hver var niðurstaðan hjá hinum Norðurlöndunum. Það var reyndar vilji margra hér en hann fékk ekki að koma fram vegna þess að það var barið niður.