Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:32:44 (4971)

2001-02-26 17:32:44# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:32]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að þetta er kannski ekki stærsta efnisatriði málsins. Ég held þó að ástæða sé til að reyna að hafa orðalag skýrt eins og kostur er í þessum efnum og passa sig á því að oftúlka ekki það sem er þrátt fyrir allt fólgið í aðild að Schengen-samstarfinu sem slíku, borið saman við það sem fyrir var eða er gagnvart öðrum. Það er algjörlega ljóst að fyrir eru þau ákvæði sem tryggja frjálsa för innan alls Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli staðfesturéttarins þar. Ég lít jafnframt svo á að ferðafrelsi ríki milli Íslands og Bandaríkjanna og að við höfum áfram landið opið fyrir ferðamönnum o.s.frv. og það gildi tilteknar reglur um stöðu þeirra hér, hversu lengi þeir mega dveljast, í hvaða erindagerðum þeir eru o.s.frv.

Herra forseti. Ég er að segja þetta til að menn fari ekki að rugla því saman við þetta mál, spurningu um einhverja einangrunarhyggju eða það að landið lokist af eða einangrist. Engin ástæða er til að draga spurninguna um þátttöku eða ekki þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu sem felur í sér afnám persónueftirlits á landamærum og þátttöku í þessum upplýsingagrunni inn í umræður um það hvernig við stöndum að málum hvað varðar reglur um ferðamenn og að landið sé opið fyrir ferðalöngum, spurninguna um vegabréfaáritanir gagnvart öðrum löndum, þriðju löndum o.s.frv. Það eru algjörlega aðskilin mál og þar höfum við í okkar höndum að hafa hlutina eins og við kjósum og auðvitað eru hlutirnir smátt og smátt að opnast meira upp í þessum efnum, það er að fjölga þeim löndum sem ekki þurfa vegabréfaáritun o.s.frv. Því held ég alveg aðskildu burt séð frá þessu. Nærtækast er auðvitað það að Bretar og Írar eru ekki aðilar að Schengen og heldur þó enginn því fram að þeir séu eitthvað að einangra sig með því.