Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:34:54 (4972)

2001-02-26 17:34:54# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon séum í raun alveg sammála um þetta mál. Þetta snýst auðvitað um vegabréfsáritanirnar. Eins og ég sagði í ræðu minni snýst þetta mál ekki um það hvort menn beri vegabréfið sitt á milli landa af því ég hygg að það geri allir sem á annað borð leggjast í ferðalög. Hins vegar er mjög mikilvægt að hafa í huga að auðvitað endurspeglast vilji ríkjanna í þessum áritunum, þ.e. hverjum skuli hleypa inn á svæðið eða inn í Schengen-löndin, frá löndum sem eru utan svæðisins. Það er einmitt það sem ég vék að í ræðu minni um þær heimildir sem tryggja mættu aukið ferðafrelsi þeirra sem koma frá löndum utan Schengen-svæðisins, væntanlega til að koma hér inn og þar með vitna ég m.a. í Grígorí Javlinskí. Það höfum við alveg í hendi okkar. Það ákveðum við sjálf og það vitum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mjög vel. Þess vegna er langmikilvægast að við vinnum þannig úr þessu máli að alveg sé tryggt að engin lokun sé í gangi af Íslands hálfu heldur að hér sé tryggð réttlát og sanngjörn málsmeðferð, bæði hælisbeiðenda og líka það að við séum ekki að óþörfu að loka dyrunum á það fólk sem hingað kemur frá löndum utan Schengen-svæðisins til lengri eða skemmri tíma.