Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:37:16 (4973)

2001-02-26 17:37:16# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þegar hefur farið fram umræða um það að þessi tillaga er seint á ferðinni og er tiltölulega nýkomin inn í þingið og ljóst að nauðsynlegt var að þingið afgreiddi hana fyrir lok febrúarmánaðar. Ég vil fyrst og fremst undirstrika að það er óþægilegt að standa að þannig ferli, hvort sem það er í vinnubrögðum innan lands eða í alþjóðlegu samstarfi, að þjóðþingum sé á einhvern hátt stillt upp eins og menn hafa á tilfinningunni með þeim tímamörkum sem eru hér á ferðinni. Ég vil gagnrýna það og hvetja til þess að eins og unnt er sé reynt að hafa áhrif á að þingin fái ekki þá tilfinningu að hér sé nægilegt að renna málunum í gegn eins og um afgreiðslustofnun væri að ræða.

Þetta mál var tekið fyrir í utanrmn. á tveimur fundum. Ég var viðstödd fyrri fundinn en því miður fjarverandi seinni fundinn vegna trúnaðarstarfa erlendis. Hins vegar hefur þingmaður Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, gert mjög vel grein fyrir fyrirvara Samfylkingarinnar í þessu máli. Mun það stytta mál mitt vegna þess að ekki er ástæða til að bæta miklu þar við heldur eru hér örfá atriði sem ég vil fyrst og fremst árétta í umræðunni.

Ég vil sérstaklega benda á það sem kom fram í framsögu Jóns Kristjánssonar fyrir nál. að meiri hlutinn í utanrmn., sem Samfylkingin stendur að, vekur í nál. athygli á nauðsyn þess að fram fari ítarleg skoðun á löggjöf sem varðar heimild til fingrafaratöku af hælisleitendum, einkum varðandi aldursmörk einstaklinga og varðveislu gagna. Þetta er mikilvægt vegna þess að umræða varð um þetta mál strax við fyrstu yfirferð málsins og þetta er full ástæða til að skoða.

Hins vegar vil ég fyrst og fremst í þessari umræðu benda á það sem ég tel grundvallaratriði í umræðunni í utanrmn. og það er að samningurinn sem við erum að gerast aðilar að eða að fullgilda setur aðildarlöndunum engar skorður varðandi stefnumörkun, svo fremi að réttindi hælisleitenda samkvæmt samningnum séu tryggð. Þetta þýðir einfaldlega að Ísland getur sett sér markmið í meðferð hælisleitenda sem hingað koma og berja að dyrjum í velferðarsamfélagi okkar og getur sett sér löggjöf og gert í raun og veru enn betur ef stjórnvöld kæra sig um en gerð er krafa um hér.

Það er ekki eins og þetta mál, hvernig við bregðumst við hælisleitendum sem koma að landamærum Íslands, sé fyrsta umræðan varðandi þau mál, þvert á móti. Í tvígang voru þessi mál tekin til mjög ítarlegrar umræðu, í nóvember og desember. Það var vegna þess að lögð voru fram tvö frv., annars vegar frv. með tilvísun í þennan samning og hins vegar frv. varðandi heildarlöggjöf um málefni útlendinga sem er enn þá til meðferðar í allshn. Í utanrmn. settum við í Samfylkingunni fram beiðni um að fá minnisblað þar sem farið yrði yfir það hvernig meðferð stjórnvalda hefur verið á hælisleitandi útlendingum sem hefur borið hér að garði.

Varðandi þá þáltill. sem hér er verið að afgreiða og þau frv. sem liggja fyrir þinginu, þ.e. að í gömlu lögunum var heimild fyrir lögreglu til að neita útlendingi um landgöngu ef lögreglu fannst framburður útlendingsins ekki sennilegur, þá finnst mér að það hefði átt að koma fram hvernig sú heimild hefur verið nýtt, hversu oft lögreglan hefur nýtt sér samkvæmt lögum réttinn til að neita útlendingi um landgöngu. Við vitum það að á liðnum árum hefur mjög borið á gagnrýni á það hvernig hefur verið komið fram við þá útlendinga sem hafa komið með þessum formerkjum til landsins. Hins vegar er alveg ljóst að það lagafrv. sem liggur nú fyrir þinginu og er til meðferðar í allshn. varðandi útlendinga afnemur þessa heimild lögreglu. Það er mjög ákvætt vegna þess að segja má að þetta sé andfélagslegt ákvæði.

Það er líka dregið fram að fullgilding Íslands að Dyflinnarsamningnum og þátttaka í Schengen-samstarfinu fela ekki í sér breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur gilt og nefnt er í minnisblaðinu. Þar er fyrst og fremst verið að nefna jákvæða þætti eins og þá að Rauði krossinn tekur að sér að sinna útlendingum og að lágmarksaðstoð er veitt og jafnvel framfærsla og aðstoð lögmanns ef menn vilja leggja mál sín fyrir dómsmrn. --- en það hefur verið eitt af baráttumálum mannréttindasamtaka að þegar útlendinga ber að garði og eru hælisbeiðendur, sé þeim bæði boðin aðstoð lögmanna um leið og mál þeirra er tekið fyrir og aðstoð túlks o.s.frv. til að meðferð þeirra verði sem sanngjörnust og réttmætust --- þannig að þau atriði sem bent er á séu jákvæð í meðferð Íslands á hælisleitendum. Tekið er fram að þessi fullgilding Íslands á samningnum felur ekki í sér breytingar á því fyrirkomulagi.

Einnig er vísað til þess að ný lög um útlendinga, ef þau verða samþykkt, fela í sér að réttarstaða hópsins verði skýrð og lagagrundvöllur undir alla afgreiðslu mála hælisleitenda verði treystur.

Þá hlýt ég að vekja athygli á því, herra forseti, að tvö frv. liggja fyrir þinginu. Annað er fyrst og fremst ein grein og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Nú ber svo við að á sama tíma og við erum að taka fyrir þessa fullgildingu á Dyflinnarsamningnum, sem á að auka rétt hælisbeiðenda, er jafnframt búið að afgreiða út úr allshn. þetta frv. með meirihlutaafgreiðslu fimm meirihlutamanna í nefndinni og þá er Alþingi í raun og veru með vilja meiri hlutans að ákveða að í lögum hjá okkur standi: ,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

[17:45]

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég vona að umræðan hér snúist ekki bara um málvitund heldur fyrst og fremst um pólitík. Það er dálítið undarlegt að bæði í grg. með þáltill. sem við erum hér að fjalla um og nefndaráliti sé lögð áhersla á að aðild okkar og fullgilding á Dyflinnarsamningnum sé í raun réttarbót fyrir þá útlendinga sem hingað leita. Mér finnst, herra forseti, frekar ósæmilegt að túlka þennan samning þannig að í stað þess að þess sé gætt að útlendingar séu ekki hraktir á milli landa í leit að hæli sé það eitt tryggt að ákveðið land taki mál hans örugglega fyrir, að túlkunin á því mikilvæga ákvæði sé fest þannig í lög hér að útlendingur eigi ekki rétt ef krefja megi annað ríki o.s.frv.

Mér finnst þetta mikið umhugsunarefni. Mér finnst þetta vont innlegg í þá umræðu sem fer fram hér í dag. Hins vegar ætla ég ekki að fara í þá umræðu hér og nú. Mér skilst að þetta frv. sem hefur verið afgreitt út úr allshn. verði tekið fyrir 1. mars. Þá skulum við bara ræða það. Ég hef borið þá von í brjósti að um leið og við afgreiðum heildarlöggjöf um útlendinga þá séum við með jákvæðum hætti að taka á öllu því sem lýtur að meðferð útlendinga hér á landi, hvort sem það eru hælisbeiðandi útlendingar, erlent vinnuafl, fólk sem kemur hingað og kýs að búa með okkur og við tökum opnum örmum, eða þeir sem menn eru kannski að spyrna fótum gegn. Í öllum tilfellum vil ég að við höfum mannréttindi í fyrirrúmi og tökum á málum þessa fólks þannig að sæmandi sé og berum virðingu fyrir stöðu þess.

Í nál. meiri hlutans segir um þessa einu málsgrein í frv., um að útlendingur eigi engan rétt á hæli hér ef það megi krefja annað ríki um slíkt o.s.frv., segir, með leyfi forseta:

,,Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma reglur um hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna. Er samningnum ætlað að bæta réttarstöðu þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu með því að tryggja að umsóknir þeirra hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna en verði ekki vísað milli aðildarríkjanna án þess að nokkurt þeirra telji sig bera ábyrgð á meðferð umsóknanna.``

Það er auðvitað mjög gott að flóttamenn hrekist ekki frá einum landamærum til annarra. Ég verð hins vegar að segja að frá því þetta blessaða frv. leit dagsins ljós hér á Alþingi hefur mér ekki fundist þetta mannsæmandi orðalag í lögum hjá okkur miðað við hversu stórt við tökum upp í okkur þegar við mælum fyrir aðild okkar að alþjóðasamningum, þegar við undirgöngumst mannréttindasamninga o.s.frv. Þá er annað hljóð í strokknum.

Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst draga þetta atriði inn í umræðuna hér og benda á að stundum rekst hvað á annars horn í málum stjórnarmeirihlutans. Að öðru leyti vísa ég til þess sem fram hefur komið í máli Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hins fulltrúa Samfylkingarinnar í utanrmn., og tek undir hvert einasta orð sem fram kom í framsögu hennar.