Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:15:09 (4975)

2001-02-26 18:15:09# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði í ræðu hv. 13. þm. Reykv. sem ég vil koma inn á. Hið fyrra er að Schengen-samkomulagið sé þáttur í að ná markmiðum innri markaðarins í samræmi við Rómarsáttmálann. Þetta breytir engu um fyrri yfirlýsingar mínar um að ég tel þetta ekki koma aðild okkar að Evrópusambandinu við vegna þess að innri markaður Evrópusambandsins er ekki nýr fyrir okkur. Við erum aðilar að honum að undanteknum afmörkuðum sviðum sem eru okkur það mikilvæg að við höfum ekki treyst okkur til að gerast aðilar að Evrópusambandinu þeirra vegna. Það er umræða sem er kunn og ég ætla ekki að taka hér.

Í öðru lagi varðandi kostnaðinn þá finnst mér hv. þm. skauta dálítið léttilega yfir hann. Hann talar um sóun í þessu sambandi, óráðsíu og blandar þessu saman við öryrkjaumræðuna. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu. Ef það er hins vegar óráðsía að efla löggæslu, ef það er óráðsía að efla tollgæslu, ef það er óráðsía að byggja flugstöð sem er sprungin og það þarf að bæta þar við vegna þess að umferðin um flugstöðina hefur margfaldast, þá veit ég ekki hvað óráðsía er. Mér finnst þessi samanburður allur meira og minna út í hött en get auðvitað tekið nánari umræðu um það við tækifæri.