Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:17:08 (4976)

2001-02-26 18:17:08# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég var fyrst og fremst að vísa og vitna í yfirlýsingar hæstv. utanrrh. á sínum tíma varðandi Evrópusambandið. Hann sagði að ákvörðunin um Schengen-aðildina væri fyrst og fremst pólitísks eðlis og fjallaði um það hvar við vildum standa í samfélagi þjóða, hvaða þjóðir við teldum að við mundum hafa mest samskipti við í náinni framtíð. Þetta sagði hann þegar hann var inntur eftir röksemdum ríkisstjórnarinnar varðandi fjárhagshlið þessa máls og hvernig hún gæti varið það að verja milljörðum króna í stofnkostnað og mörg hundruð milljónum á ári hverju í rekstrarkostnað á kerfi sem færir okkur engar sýnilegar hagsbætur.

Hv. þm. og formaður fjárln. þingsins segir að ég skauti léttilega yfir fjárhagslegar stærðir. Ég geri það ekki. Ég var að vísa í orð hæstv. dómsmrh. sem sagði fyrr í vikunni að búið yrði að bókfæra í lok þessa árs 465 millj. kr. hjá því ráðuneyti einu og síðan væru 700 millj. sem færu í stofnkostnað við stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég gagnrýndi þá tölu og vísaði í orð byggingarnefndarmanns við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem telur þessa upphæð allt of lága. Hann nefndi 3 milljarða. Ég er að vísa í rök og ég er að vísa í upplýsingar sem frá stjórnvöldum eru komnar. Ég segi við hv. þm. Jón Kristjánsson að mér finnst hann, að ekki sé á það minnst að hann er formaður fjárln., skauta mjög léttilega yfir þessar fjárhagsstærðir.