Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:21:30 (4978)

2001-02-26 18:21:30# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það stendur svolítið á því að fá upplýsingar um hvað er hagkvæmara við þetta kerfi. Vegabréfaeftirlitið hefur ekkert með það að gera, segir hv. þm. Jón Kristjánsson núna. Það var öðru nær þegar menn voru að ræða þetta í mars á síðasta ári. Ég var að vísa í ummæli hæstv. ráðherra og samflokksmanna hv. þm. í því efni.

Hvað eftirlitið varðar þá er ekki verið að efla það. Það er verið að veikja það en færa þetta eftirlit til og inn í samfélagið með ýmsum að því er ég óttast varasömum afleiðingum.

En varðandi kostnaðarhliðina þá er það svo að byggja þarf tvöfalt kerfi í Keflavík til þess að taka á móti ferðamönnum. Þegar þetta var til umræðu á sínum tíma, þá óttuðust Flugleiðir eða talsmenn Flugleiða að þetta mundi tefja tengiflugið vegna þess að ræsa þarf alla út úr flugvélunum til að setja þá í passaskoðun í Keflavík og þá var fyrirtækinu lofað að reynt yrði að hafa mjög hraðvirkt kerfi með fjölmennu starfsliði og miklum tækjabúnaði til þess að ekki yrðu miklar tafir á flugi, reynt yrði að mæta Flugleiðum á þennan hátt. En auðvitað kostar þetta allt saman mjög mikla peninga. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum vildu Íslendingar ekki einfaldlega varðveita þá stöðu sem þeir hafa sem ríki á mótum tveggja heima, Vesturheims og gamla heimsins? Það hefði verið hagkvæmara fyrir okkur, ódýrara, en að vísu hefði hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. ekki átt eins greiða leið í gegnum passaskoðun til Brussel.