Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:28:02 (4981)

2001-02-26 18:28:02# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru frekar billegir útúrsnúningar að vera að tengja ráðherrann við einhverja vegabréfaskoðun og í sjálfu sér engin umræða.

Ég á auðvelt með að réttlæta þennan kostnað fyrir sjálfum mér, hv. þm., því að ég lít svo á að Evrópska efnahagssvæðið og aðild okkar að þeim samningi sé okkur mjög mikilvæg og það kostar peninga að viðhalda þeim samningi og tengja okkur en vegna stöðu okkar í þessum heimshluta þurfum við að leggja út í ákveðinn fórnarkostnað. Schengen er ákveðinn fórnarkostnaður til þess að styrkja Evrópska efnahagssvæðið og þann samning sem við höfum gert þess vegna.

Ég sé að sjálfsögðu að það er ákveðið óhagræði í flugstöðinni sem skapast við þetta vegna þess að þarna er tvöfalt kerfi. Það er alveg hárrétt og það vissu allir. Einnig er vandamál út af verslunum. En eins og komið hefur fram þurfti reyndar að stækka Leifsstöð fyrst og fremst vegna þess að hún var orðin of lítil.

Evrópusambandið hefur farið út í samstarf milli þjóða Evrópu og með því að gera okkur að landamærastöð erum við náttúrlega eins tengdir Evrópusambandinu og við getum án þess að vera hluti Evrópusambandsins. Þannig lítur þetta a.m.k. út fyrir mér og ég segi: Með því getum við verið utan Evrópusambandsins um ókomna tíð ef svona fer fram því að ég lít svo á að við eigum ekki að tengjast Evrópu meira en orðið er. En ég segi ekki að ekkert geti breyst í framtíðinni því auðvitað eru þessir samningar að breytast öllum stundum en ég held að þetta hafi verið farsælt skref. Schengen-samstarfið á að veita okkur ýmsa kosti svo sem hér hefur komið fram, t.d. varðandi eftirlit með óæskilegu fólki og innflutningi eiturlyfja o.fl.