Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:32:44 (4986)

2001-02-27 13:32:44# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Umræður um réttarvörslukerfi og löggæslu hafa verið fyrirferðarmiklar á hinu háa Alþingi á undanförnum missirum. Það þarf ekki að koma á óvart því að góð löggæsla skiptir borgarana meira máli en flest annað af því sem hið opinbera rekur. Það er því ekki að tilefnislausu sem þessi mál hafa verið rædd á hinu háa Alþingi.

Umræða um lögreglustjóraembættið í Reykjavík hefur verið sérstaklega hávær, enda ekki að undra þar sem um er að ræða stærsta einstaka lögreglustjóraembættið í landinu. Í þeirri umræðu hefur það viðhorf margoft komið fram að embættinu hafi ekki verið úthlutað nægum fjármunum svo það fái rækt hlutverk sitt í samræmi við lög. Um það hvort vandamál embættisins stafi einvörðungu af fjárskorti eða að stjórn og skipulag þess sé ekki sem skyldi skal ósagt látið hér, en hinu verður ekki á móti mælt að undanfarin ár hefur gengið erfiðlega fyrir embættið að láta enda ná saman.

Tilefni þessarar umræðu er umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga um yfirvinnubann hjá ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og hugsanlegar afleiðingar þess. Í þeirri umfjöllun hefur komið fram að vegna bannsins hafi mál farið forgörðum auk þess sem ekki hafi reynst mögulegt að sinna beiðnum lögregluembætta utan af landi um aðstoð vegna innflutnings fíkniefna. Af þeim sökum ritaði Landssamband lögreglumanna prófessor við lagadeild Háskóla Íslands bréf 19. okt. sl. þar sem þess var farið á leit að hann svaraði m.a. eftirfarandi spurningum, með leyfi forseta:

,,Hver er réttarstaða lögreglumanna sem hafa vitneskju um brotastarfsemi en sinna ekki rannsókn máls þar sem fyrir liggur að þeir muni ekki fá greitt sérstaklega fyrir þá vinnu sem þeir leggja í slíkar rannsóknir utan dagvinnutíma?

Þessi spurning er borin fram sökum þess að undanfarnar vikur hefur ríkt algert bann við aukavinnu í ávana- og fíkniefnadeild.``

Í bréfinu kemur fram fullyrðing þess efnis að yfirvinnubann eða takmörkun á yfirvinnu hafi verið við lýði samkvæmt fyrirskipun yfirmanna í deildinni. Þessi fullyrðing hefur einnig komið fram í öðrum fjölmiðlum eins og Degi og DV auk þess sem einstakir lögreglumenn hafa haldið þessu fram bæði munnlega og skriflega. Það er því ekki að tilefnislausu að alþingismenn sem hafa annars vegar það hlutverk að veita framkvæmdarvaldinu aðhald í störfum sínum og hins vegar að hafa með höndum fjárveitingavald hafi gengið eftir því við hæstv. dómsmrh. hvort eitthvað sé í ólagi í löggæslunni. Þessu hefur hæstv. ráðherra mótmælt.

Sem dæmi má nefna að í Kastljósþætti þann 25. okt. sl. hélt hæstv. ráðherra því fram í samtali við þann sem hér stendur, með leyfi forseta, að hún ,,fylgist mjög náið með því hvernig þessi mál standi og muni persónulega sjá til þess að það verði engar rannsóknir strand í fíkniefnamálum. Þetta tel ég mikilvægt að hafa í huga``.

Síðar í sama þætti sagði hæstv. ráðherra aftur, aðspurð vegna síendurtekinna erfiðleika við rekstur lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, með leyfi forseta: ,,Það er engin spurning um það hver ber ábyrgðina. Auðvitað ber ég ábyrgðina sem yfirmaður þessara mála, en það eru engin vandamál í gangi.``

Aðspurð um sama efni í umræðum utan dagskrár hér á hinu háa Alþingi 16. nóv. sl. fullyrti hæstv. ráðherra í tví- eða þrígang a.m.k. að ekkert yfirvinnubann ,,sé eða hafi verið í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík``. Svo mörg voru þau orð.

Það kom því alþingismönnum í opna skjöldu þegar í ljós var leitt í fréttaþættinum Hér og nú í Ríkisútvarpinu sl. föstudag að Landssamband lögreglumanna hefði leitað til prófessors í lögum vegna þessa yfirvinnubanns sökum þess að það óttaðist um réttarstöðu félagsmanna sinna. Þær fullyrðingar voru í andstöðu við það sem áður hafði komið fram á hinu háa Alþingi um að ekkert yfirvinnubann væri í gildi.

Í niðurstöðum prófessorsins kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Þegar framangreindu er gaumur gefinn, og þá sérstaklega banni við yfirvinnu sakir niðurskurðar á fjárveitingum og skyldu opinberra starfsmanna til að hlýða löglegum fyrirmælum yfirmanna sinna, verður ekki talið að starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar hafi gerst brotlegir við lög, hvorki hegningarlög né önnur þótt rannsókn mála spillist vegna yfirvinnubanns. Fyrirmæli yfirmanna um bann við yfirvinnu verða að teljast lögleg ef ástæðan er ónógar fjárveitingar sem raktar verða til ákvarðana Alþingis sem fer með fjárveitingavaldið. Þó verður að áskilja að þeir hafi vakið athygli yfirmanna sinna á vandanum.``

Enn fremur kemur eftirfarandi fullyrðing fram í niðurlagi álitsins, með leyfi forseta:

,,Að lokum hlýtur að koma til kasta Alþingis. Engin samkvæmni er í því að leggja ríkar skyldur á lögreglumenn til að upplýsa brot, ekki síst fíkniefnabrot, en hafna síðan nauðsynlegum fjárveitingum.``

Þessar fullyrðingar vekja því upp spurningar um hvort Alþingi hafi verið í stakk búið til að fjalla um þessi mál við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001 í ljósi þeirra upplýsinga sem hæstv. dómsmrh. hafði veitt í umræðum á opinberum vettvangi annars vegar og á hinu háa Alþingi hins vegar um stöðu löggæslumála, en fullyrt hafði verið að allt væri í himnalagi. Því stendur eftir spurningin hvort hæstv. ráðherra hafi farið með rangt mál. Í því ljósi leyfi ég mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh. sem hún fékk reyndar sendar kl. 10 í morgun:

,,Stendur dómsmrh. enn við fyrri yfirlýsingar sínar hér á hinu háa Alþingi um að hvorki sé né hafi verið í gildi yfirvinnubann í ávana- og fíkniefnamáladeild lögreglunnar?

Eru dæmi þess samkvæmt upplýsingum ráðherra að sakargögnin hafi spillst o.s.frv.?`` (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég heyri að tíminn er liðinn. Hæstv. ráðherra fékk þessar spurningar sendar í morgun kl. 10 þannig að hún ætti að vera nægilega vel undirbúin.