Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:38:23 (4987)

2001-02-27 13:38:23# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það mál sem hér er tilefni utandagskrárumræðu í dag þykir mér afar sérstakt svo ekki sé meira sagt. Ég vil byrja á því að vísa alfarið á bug þeirri gagnrýni sem komið hefur fram hjá hv. málshefjanda um að fjárveitingar til lögreglunnar í landinu til fíkniefnalöggæslu hafi verið af svo skornum skammti að það hefði leitt til þess að einhver mál hafi ekki verið rannsökuð sem skyldi. Ég stend að sjálfsögðu við allar fyrri yfirlýsingar mínar í þessu efni, enda hefur það væntanlega ekki farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda og málshefjanda hvaða árangri lögreglan hefur náð.

Það er einnig hreinn útúrsnúningur hjá málshefjanda að tala um að ekki sé að finna sérstakar fjárveitingar til fíkniefnavarna í fjáraukalögum. Það var ein af þeim spurningum sem ég fékk senda frá honum í morgun. Fjárveitingar voru auknar í fjárlögum frá því sem áður var, bæði hvað varðar árið 2000 og 2001.

Það er alþekkt staðreynd að fjárveitingar til fíkniefnalöggæslu hafi verið stórauknar á síðustu árum. Ég get einnig upplýst að ég hef engar ábendingar fengið þess efnis að ekki hafi verið unnt að veita löggæslu utan höfuðborgarsvæðisins lögbundna aðstoð í fíkniefnamálum sem rakin verður til meints fjárskorts lögreglunnar í Reykjavík.

Ég veit heldur ekki dæmi þess að sakargögn hafi spillst eða farið forgörðum af sömu ástæðum.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég er orðin langþreytt á umræðum um yfirvinnubann fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík. Það hefur aldrei verið sett yfirvinnubann á deildina og þeir sem halda öðru fram vita einfaldlega ekki hvað þeir eru að tala um. Á síðasta ári fékkst fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík við uppljóstrun og rannsókn umfangsmikilla fíkniefnamála eins og alþjóð er kunnugt. Þetta kallaði á gífurlega yfirvinnu deildarinnar og þegar líða tók á árið var ljóst að útgjöld deildarinnar og þar með lögreglunnar í heild stefndu verulega fram úr áætlun. Við erum að tala um að lítill hópur manna innan fíkniefnadeildarinnar vann 200--300 yfirvinnutíma á mánuði í nokkra mánuði vegna viðvarandi eftirlits með grunuðum mönnum sem stóð allan sólarhringinn, hlerana o.fl. Því var gripið til takmarkana á yfirvinnu í deildinni þegar yfirstjórn lögreglunnar þótti það óhætt. En það er algjörlega fráleitt að sett hafi verið á yfirvinnubann eins og tönnlast hefur verið á.

Ég hef margoft reynt að leiðrétta þessa síbylju en hef orðið vör við að menn vilja ekki hlusta á það. M.a. upplýsti ég þetta í utandagskrárumræðu á síðasta hausti, en sumir hv. þm. virðast ekki hafa hlustað á það. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort hv. málshefjandi sé að halda því fram að ég hafi sagt Alþingi og þjóðinni ósatt. Er það skoðun hans?

Bæði lögreglustjóri og reyndar ég sjálf lýstum því yfir að þessar takmarkanir yrðu ekki látnar standa því í vegi að rannsaka ný mál ef upp kæmu. Varð svo í raun og m.a. veitti ríkisstjórnin að minni tillögu sérstaka fjárveitingu af ráðstöfunarfé sínu til rannsóknar á stóru máli sem upp kom á síðustu mánuðum ársins. Ég gaf yfirstjórn lögreglunnar í því sambandi bein fyrirmæli í sambandi við rannsókn mála og hafði persónuleg afskipti af málinu.

Það er afar sérkennilegt að heyra hvernig álitsgerð Sigurðar Líndals sem unnin var fyrir Landssamband lögreglumanna hefur verið tengd meintri óánægju í leit að fíkniefnum sökum fjárskorts. Álitsgerðinni hefur verið gerð góð grein í fjölmiðlum en meginniðurstaða hennar er sú að menn yrðu að fara eftir fjárlagaheimildum við störf sín þó að frávik megi réttlæta í sérstökum tilvikum vegna nauðsynjar sem ekki yrði með rökum mótmælt.

Þá er einnig undirstrikað að lögreglumönnum ber að hlíta fyrirmælum yfirmanna sinna. Aðgerðir í fíkniefnamálum hljóta að byggjast á mati yfirmanna sem oft þurfa að taka skjótar ákvarðanir. Ef þeim þykir svo við að horfa hefur þeim verið unnt að fyrirskipa mönnum sínum að vinna yfirvinnu en við aðrar aðstæður kann þeim að þykja óþarfi á því.

Í fréttaflutningi hefur álitsgerðin verið tengd við mál sem upp kom í Vestmannaeyjum. Hefur verið fullyrt að þar hafi fíkniefnaleit í skipum verið takmörkuð sökum yfirvinnubanns fíkniefnalögreglu. Það mál hófst þegar grunur vaknaði um að fíkniefnasending leyndist innan borðs í skipi á leið til Vestmannaeyja. Lögreglan þar var vöruð við og bjó hún sig til leitar og hafði hún jafnframt samband við embætti ríkislögreglustjóra sem lýsti sig reiðubúið til aðstoðar við leit í skipinu. Einnig var haft samband við embætti lögreglustjórans og tollstjórans í Reykjavík. Viðkomandi lögreglumenn voru síðan í sambandi og niðurstaðan varð sú að tollvörður var sendur frá Reykjavík með fíkniefnaleitarhund en ekki var talin þörf á frekari aðstoð úr landi. Síðan var leitað í skipinu en hin ætlaða sending fannst ekki. (Forseti hringir.) Slíkt gerist stundum og er ekkert óeðlilegt við það, enda upplýsingar lögreglu ekki alltaf hinar áreiðanlegustu. (Forseti hringir.) Ég hef hins vegar farið fram á rannsókn hjá ríkislögreglustjóra út af þessu máli og mér er kunnugt um að ríkissaksóknari hefur beðið um gögn um samskipti lögregluliðanna.