Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:28:49 (5002)

2001-02-27 14:28:49# 126. lþ. 77.3 fundur 391. mál: #A framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um frv. Eins og fyrri ræðumenn kem ég hér fyrst og fremst til að fagna því að þetta frv. er nú flutt. Með afgreiðslu þess lýkur uppfyllingu þeirra lögformlegu skilyrða sem af Íslands hálfu þarf að standa fyrir til að við höfum gert skyldur okkar gagnvart því að dómstóllinn geti tekið til starfa og hafi fengið fullnægjandi stuðning nægjanlega margra ríkja til þess að svo verði.

Síðasta vor fjölluðum við um till. til þál. um staðfestingu á aðild Íslands að dómstólnum og þá lýsti ég afstöðu minni til málsins og mikilli ánægju með að þetta baráttumál væri loksins að ná fram að ganga.

[14:30]

Mannréttindasamtök um allan heim hafa árum saman barist fyrir því að til sögunnar kæmi fastadómstóll þannig að ekki þyrfti að grípa til þess í hverju einstöku tilviki ef svo má segja þegar alvarleg brot á mannréttindum höfðu átt sér stað í tengslum við einhverja atburði að setja upp ,,ad hoc`` dómstól eða tímabundinn dómstól eins og gert hefur verið og menn þekkja og reyndar stendur yfir nú vegna mannréttindabrota á Balkanskaga.

Alþjóðlegur sakamáladómstóll, fastadómstóll sem er til staðar til þess að taka á slíkum brotum hvar og hvenær sem þau fara fram hefur fasta lögsögu, er að sjálfsögðu á allan hátt öflugra tæki í þessum efnum en sá möguleiki hefur verið að kveðja saman slíkan dóm vegna alvarlegra brota á Genfarsáttmálanum eða öðrum mannréttindasáttmálum. Þessi dómstóll hefur lögsögu bæði gagnvart stríðsglæpum eða mannréttindabrotum sem eru framin í skjóli þess að styrjöld eða stríðsástand sé eða vopnuð átök geisi og eins þótt slíkir atburðir eigi sér stað utan marka slíks ástands og er þar af leiðandi með mjög víðtæka lögsögu í þessum efnum.

Það er aðeins eitt atriði, herra forseti, sem ég vil gera að umtalsefni sem varðar efni málsins og það er spurningin um fullnustu dóma Alþjóðlega sakamáladómstólsins hér á landi. Nú er það svo að í þessu frv. er í 8. gr. sköpuð lagastoð fyrir því að fullnusta dóma Alþjóðlega sakamáladómstólsins hér á landi og þar segir, með leyfi forseta:

,,Að beiðni dómstólsins er heimilt að fullnægja dómum hans hér á landi. Dómum má fullnægja þótt dómþoli sé ekki íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi.

Fullnusta dóma hér á landi skal fara fram í samræmi við ákvæði 10. kafla Rómarsamþykktarinnar.``

Þetta er væntanlega orðað svo vegna þess að til þess að auðvelda dómstólnum hlutverk sitt er gert ráð fyrir því að aðildarríki geti lagt það fram ef svo má að orði komast að bjóðast til að fullnusta dóma yfir sökudólgum sem svo hafa verið dæmdir þó að þeir séu með annað ríkisfang. Þetta er einfaldlega vegna þess að ekki er reiknað með því að því verði alltaf komið við að hægt sé að senda viðkomandi aðila til heimalands síns til að afplána refsinguna og þá þarf sú fullnusta dómsins einhvers staðar að eiga sér stað og um þetta er síðan nánar fjallað í 10. kafla. En það sem ég hefði haft áhuga á að farið yrði yfir í hv. þingnefnd er samhengi refsiákvæða og þess sem hér er þá verið að lögtaka með þeim hætti ef ég skil rétt með að refsiákvæðin eða dómar dómsins öðlist þá sjálfkrafa þá stöðu að vera ígildi refsingar að landsrétti. Við skulum segja að maður sé dæmdur í 10 ára fangelsi eða til að afplána 10 ára fangelsisvist af dómnum, þá yfirfærist sá dómur með tilteknum hætti til þess lands sem tekur að sér fullnustu dómsins ef þetta er þannig hugsað og það þurfi þar af leiðandi ekki með sjálfstæðum hætti í landsrétti viðkomandi lands að tilgreina refsiheimildirnar. Ég spyr einnig vegna þess að fyrir skömmu urðu orðaskipti milli mín og hæstv. utanrrh. sem vörðuðu það sem ég taldi vera og hafði ástæðu til að ætla að væru göt í löggjöf okkar hvað varðaði það að fullnægjandi refsiheimildir væru til staðar vegna brots á Genfarsáttmálanum.

Hæstv. ráðherra upplýsti að í ráðuneyti hans, utanrrn., vel mögulega í samstarfi við dómsmrn., hefði þetta mál verið athugað og talið væri fullnægjandi að vísa í þeim efnum til almennra hegningarlaga og þeirra refsiákvæða sem þar væru og þeim mætti beita gagnvart slíku, þ.e. ef íslenskur ríkisborgari, maður sem væri sóttur til saka hér vegna brota á ákvæðum Genfarsáttmálans, væri t.d. sekur um gróf mannréttindabrot, glæpi gegn mannkyni eða annað því um líkt, þá mætti sækja hann til saka hér og dæma til refsingar á grundvelli refsiákvæða almennra hegningarlaga. Ekki þyrfti að setja í landslög sjálfstæð lagaákvæði til að tilgreina refsiheimildir vegna brota á Genfarsáttmálanum sem slíkum en það hefur ekki verið gert þó að í sáttmálanum séu þær skyldur lagðar á herðar aðildarríkjum. Það hefur verið mat margra hér að Ísland hafi að þessu leyti ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart Genfarsáttmálanum.

Nú er eitt af hlutverkum þessa alþjóðadómstóls að dæma vegna brota á Genfarsáttmálanum sjálfum. Það er m.a. sérstaklega tekið fram þegar lögsaga dómstólsins er tilgreind, eins og hér var reyndar vitnað til í framsöguræðu ráðherra og af fleiri ræðumönnum, þá er í þeim brotum sem lögsagan tekur til m.a. tilgreindir ákveðnir kaflar Genfarsáttmálans og það á sérstaklega við um stríðsglæpi.

Hæstv. utanrrh. vitnaði þar af leiðandi til þess í orðaskiptum okkar um þessi mál á dögunum að í vændum væri frv. frá hæstv. dómsmrh. þar sem lagastoð yrði skotið undir aðild okkar að Alþjóða sakamáladómstólnum, Rómarsamþykktinni og því leyfi ég mér að minna á þetta atriði hér. Ég tel nauðsynlegt að hv. allshn., sem fær málið til skoðunar, fari yfir það hvort þessi frágangur málsins sé að öllu leyti fullnægjandi og þá þannig að í leiðinni sé óyggjandi að Íslendingar hafi gert skyldur sínar gagnvart Genfarsáttmálanum þó seint sé --- að í lögum okkar séu sem sagt fullnægjandi ákvæði að öllu leyti til að framkvæmd þeirra geti gengið eðlilega fyrir sig. Þó að við vonum auðvitað að seint reyni á það að við þurfum að standa í því í okkar litla og friðsæla landi að draga menn fyrir dóm fyrir brot á slíkum ákvæðum þá breytir það engu um að við eigum að hafa frágang þessara mála með fullnægjandi hætti af okkar hálfu.

Herra forseti. Ég tek svo að lokum aftur undir það að ég held að enginn minnsti vafi sé á því að frá sjónarhóli alþjóðlegrar mannréttindabaráttu og þess að lögum og reglu verði viðhaldið og höndum komið yfir alþjóðlega glæpamenn og þá sem standa fyrir mannréttindabrotum sé stórkostlegt framfaraskref fólgið í tilkomu þessa alþjóðlega sakamáladómstóls og einasta áhyggjuefni mitt og ugglaust margra fleiri er sú tregða sem því miður gætir hjá ákveðnum ríkjum í að stíga skrefið til fulls og viðurkenna lögsögu dómstólsins. Það er svo sem ástæðulaust að nefna nöfn í því sambandi. Ég hygg að allir viti til hvers er verið að vísa. Það er því miður þannig að ákveðnir áhrifamiklir aðilar hafa tregðast talsvert við af ástæðum sem eru að mínu mati fullkomlega óframbærilegar. Það ætti að vera metnaðarmál allra ríkja sem vilja láta taka sig alvarlega á sviði mannréttindamála, ég tala ekki um þeirra sem stundum þykjast þess umkomin að leiðbeina öðrum í þeim efnum, að drífa í því að fullgilda aðild sína að þessum dómi.