Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:41:30 (5004)

2001-02-27 14:41:30# 126. lþ. 77.3 fundur 391. mál: #A framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil fá að nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. þm. fyrir ræður þeirra um þetta frv. til laga um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn og þær góðu viðtökur sem frv. hefur fengið við 1. umr.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja efni frv. frekar. Það er reyndar ekki nema 11 greinar. Hins vegar er þetta stór og þykk bók sem við erum með og greinargerðin með frv. er mjög ítarleg og auðvitað samþykktin sjálf.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi m.a. áhyggjur sínar af Genfarsáttmálanum og mér er tjáð að sú refsivernd sem er í íslenskum hegningarlögum hafi verið metin nægjanleg gagnvart þeim sáttmála.

Þá vék hv. þm. einnig talinu að 8. gr. frv. þar sem er að finna heimild til að fullnusta dóma Alþjóðlega sakamáladómstólsins hér á landi. Sú fullnusta færi fram í samræmi við úrlausn Alþjóðlega sakamáladómstólsins en í þessu sambandi langar mig til þess að benda á 105. gr. sem er á bls. 99 í frv. Þar kemur skýrt fram hvernig meðferðin er í þessu sambandi. Með leyfi virðulegs forseta segir:

,,105. gr. Fullnusta dómsins.

1. Með fyrirvara um skilyrði, sem ríki kann að hafa sett í samræmi við b-lið 1. mgr. 103. gr., er fangelsisdómur bindandi fyrir aðildarríkin og geta þau ekki undir neinum kringumstæðum breytt honum.

2. Dómstóllinn hefur einn rétt til þess að úrskurða um umsókn um áfrýjun og endurupptöku. Fullnusturíkið skal ekki koma í veg fyrir að dæmdur maður sendi inn slíka umsókn.``

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir þessar ábendingar og tel að sjálfsögðu rétt að hv. allshn. fjalli um þær í meðferð sinni og umfjöllun.