Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:44:53 (5005)

2001-02-27 14:44:53# 126. lþ. 77.4 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum. Með frv. er lagt til að einungis borgaralegir vígslumenn annist könnun hjónavígsluskilyrða þegar annað hjónaefna eða bæði eru innlendir ríkisborgarar. Samkvæmt 18. gr. laganna eru sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra borgaralegir vígslumenn. Þótt lagt sé til að einungis borgaralegir vígslumenn annist könnun hjónavígsluskilyrða í þessum tilvikum breytir það engu um að hvaða vígslumaður sem er getur síðan framkvæmt hina eiginlegu hjónavígslu. Rétt er að undirstrika þetta.

[14:45]

Könnun hjónavígsluskilyrða lýtur eingöngu að því að meta hvort fullnægt sé lagaskilyrðum til að stofna til hjúskapar. Við þá athugun þarf að líta bæði til ákvæða hjúskaparlaga og reglugerðar um könnun hjónavígsluskilyrða og enn fremur í sumum tilvikum til annarra laga og reglna. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að erlendir ríkisborgarar komi hingað til lands til að ganga í hjónaband og einnig að erlendir ríkisborgarar stofni til hjúskapar við íslenska ríkisborgara. Könnun hjónavígsluskilyrða er í ýmsum atriðum flóknari í þessum tilvikum en þegar íslenskir ríkisborgarar ganga í hjúskap. Hér getur reynt á þekkingu könnunarmanns í alþjóðlegum einkamálarétti auk þess sem athugunin tekur til erlendra gagna og vottorða. Með hliðsjón af því að borgaralegir vígslumenn eru löglærðir þykir rétt að fela þeim að annast könnun hjónavígsluskilyrða þegar um erlenda ríkisborgara er að ræða en með því er komið í veg fyrir að aðrir vígslumenn þurfi að verja tíma og fyrirhöfn til að afla sér þekkingar á lagaatriðum sem annars falla almennt utan sérsviðs þeirra.

Ég vil taka fram að það fyrirkomulag sem lagt er til með frv. getur ekki valdið neinu teljandi óhagræði fyrir hjónaefni. Þvert á móti eru það beinlínis hagsmunir þeirra að vandað sé til könnunar á hjónavígsluskilyrðum, enda getur það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá sem eiga í hlut ef þessari könnun er áfátt. Á það ekki bara við um hjónin sjálf, heldur einnig börn þeirra og reyndar þjóðfélagið í heild sinni.

Að lokum vil ég láta þess getið að frv. er samið að höfðu samráði við biskup Íslands, Prestafélag Íslands og Sýslumannafélag Íslands.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.