Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:05:54 (5009)

2001-02-27 15:05:54# 126. lþ. 77.4 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessar umræður um frv. til breytinga á hjúskaparlögum. Ýmsar athyglisverðar ábendingar hafa komið fram sem ég tel rétt að allshn. skoði nánar. Ég heyri að hv. þm. eru mér sammála um að hjónabandið sé afskaplega mikilvæg stofnun í þjóðfélagi okkar og það beri að standa rétt að allri framkvæmd í sambandi við hjónavígsluna og könnun á öllum hjónavígsluskilyrðum.

Ég vil víkja sérstaklega að spurningum frá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur. Ég verð að segja að ég hef að vísu ekki handbærar tölur um hjónavígslur þegar erlendir ríkisborgarar eiga í hlut en mun leggja áherslu á að upplýsa nefndina um þau atriði.

Hvað varðar þau gögn sem var spurt um, hvaða gögn þyrfti að útvega og hvernig ætti að leggja mat á þau þá er um að ræða pappíra eins og t.d. fæðingarvottorð, pappíra um skilnað ef viðkomandi hefur verið giftur áður og segist vera fráskilinn og það þarf auðvitað að kanna áreiðanleika þessara gagna. Sýslumenn hafa þetta vald nú þegar.

Ég man eftir því sem formaður allshn. á sínum tíma að þegar við vorum að skoða umsóknir um ríkisborgararétt þá kom í ljós að það gat verið misjafnt eftir löndum hvernig gögn voru úr garði gerð og hvaða kröfur voru gerðar til þeirra. Ég held að það geti því auðveldað erlendum ríkisborgurum að fá leiðsögn í þessum efnum frá sýslumönnum eða löglærðum fulltrúum og jafnvel ekki vanþörf á í ýmsum tilvikum. Ég er þó ekki að gera lítið úr hlutverki presta þjóðkirkjunnar í þessu sambandi sem standa sig yfir höfuð mjög vel í þessum efnum en þetta er orðið flóknara samfélag sem við búum í en var bara fyrir nokkrum árum.

Þá vil ég víkja sérstaklega að þeim ábendingum um að frv. hafi verið gagnrýnt opoinberlega og þá með þeim rökum að í því felist mismunun milli íslenskra og erlendra ríkisborgara eins og hv. þm. bentu á. Hvað þetta varðar vil ég ítreka það sem kom fram í framsöguræðu minni um að könnun hjónavígsluskilyrða geti í ýmsum atriðum verið flóknari þegar erlendir ríkisborgarar eiga í hlut. Ég vék að þessu áðan. Hér getur reynt á þekkingu könnunarmanns í alþjóðlegum einkamálarétti auk þess sem athugunin tekur til erlendra gagna og vottorða. Þessar röksemdir liggja að baki tillögu frv. um að fela löglærðum vígslumönnum könnun hjónavígsluskilyrða þegar erlendir ríkisborgarar eiga í hlut.

Hér skipta ekki síst máli þeir brýnu hagsmunir hjónaefnanna sjálfra að könnun hjónavígsluskilyrða sé vönduð og fari fram eftir settum reglum. Það getur auðvitað gert mönnum mjög erfitt fyrir ef þarna verður misbrestur á. Ég nefni sem dæmi tvíkvæni en nokkur tilvik eru um slíkt hér á landi.

Eins og ég gat um áður var frv. samið að höfðu samráði við biskup Íslands, Sýslumannafélag Íslands og Prestafélag Íslands. Þá vil ég láta þess getið að stjórn Prestafélagsins fjallaði á fundi sínum þann 5. febr. sl. um gagnrýni sem fram hefur komið á frv. og taldi stjórnin ekki tilefni til að breyta fyrri afstöðu sinni til frv.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla efnislega um þá gagnrýni sem fram hefur komið á frv. með öðrum hætti en þeim að geta þess að engum gekk það til að mismuna einum eða neinum heldur þvert á móti tekur frv. mið af hagsmunum þeirra sem í hlut eiga eins og ég hef vikið að. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að verði vafi talinn leika á því að frv. sé ósamræmanlegt jafnræðissjónarmiðum þarf að fara yfir það og gera á frv. viðeigandi breytingar. Þannig mætti hugsa sér að borgaralegum vígslumönnum yrði falið að kanna hjónavígsluskilyrði þegar athugun tekur til erlendra gagna og það ætti jafnt við um íslenska og erlenda ríkisborgara. Því skipti þjóðerni hjónaefna ekki máli heldur þau skjöl sem væru til athugunar í hverju tilviki. Ég tel rétt að hv. allshn. kanni þetta atriði nánar.