Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:11:14 (5010)

2001-02-27 15:11:14# 126. lþ. 77.4 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í andsvari lýsa ánægju minni með undirtektir hæstv. dómsmrh. við þær ábendingar sem hafa komið fram en jafnframt taka undir með hæstv. dómsmrh. að það er alvarlegur hlutur að stofna til hjónabands og það er mjög flókið að fara í gegnum feril fólks víða um lönd þegar stofnað skal til hjónabands hér. Við vitum mörg dæmi þess að erfitt er að ná í slíkar upplýsingar vegna stjórnmálaástands í viðkomandi löndum o.s.frv. Það er borðleggjandi að öllum er fyrir bestu að allar upplýsingar liggi á hreinu. Þess vegna sýnist mér í fljótu bragði að ekki sé mismunun fólgin í því að beina sjónum sérstaklega að fólki í útlöndum heldur sé verið að reyna að tryggja það að hjónaband sé byggt á þeim grunni sem efni standa til.

Ég vil árétta að ég held að það sé gott mál að hv. allshn. fari ofan í þær ábendingar sem hafa verið lagðar fram en vil lýsa yfir ánægju minni með að það eigi að fara vandlega ofan í bakgrunninn að hjónabandi því að við vitum mörg um alls konar blessanir sem hafa átt sér stað á öðrum trúarlegum forsendum en við byggjum á. Sumt er löglegt en sumt ólöglegt og eflaust eru það margir útlendingar á Íslandi að við hv. þm. kannski þekkjum eitt eða tvö eða þrjú dæmi þar sem menn hafa farið í gegnum eins konar blessun án þess kannski að gera sér grein fyrir löglegri stöðu sinni.