Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:39:23 (5020)

2001-02-27 15:39:23# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að hv. þm. sé rökþrota í málflutningi sínum og útúrsnúningum sem hann viðhafði í fyrstu ræðu sinni, því miður. Ég er búinn að útskýra það að fyrirtækið Rannsóknastofnun landbúnaðarins er alveg sambærilegt við Iðntæknistofnun og Hafrannsóknastofnun sem hafa fengið þetta frelsi til að þróa nýja atvinnu fyrir grein sína. Stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur skrifað landbrh. bréf og telur að landbúnaðurinn búi ekki við sams konar frelsi, og sér í nýjum heimi, ef ég útskýri þetta enn fyrir hv. þm., ekki síst í kringum líftækni og ýmislegt, mikla möguleika til að fá einkaaðila til að koma inn í lítil þróunarfélög og geta þá haldið betur og lengur utan um verkefni og fengið verkefni. Þetta er nútíminn í hinum stóru atvinnugreinunum. Þess vegna ann ég landbúnaðinum þess að rannsóknastofnun hans taki þátt í þessu með sams konar hætti. Þetta snýst um það og ég get ekkert útskýrt það í sjálfu sér betur. Það eru mörg verkefni sem bíða á þessu sviði eins og ég segi og það er ekki síst í líftækninni. Ég nefndi hörverkefni sem er í gangi og skilar góðu. Ég gæti auðvitað nefnt fleiri verkefni, en þetta litla frv. snýr að þessu frelsi fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins og engu öðru.

Hv. þm. verður að fyrirgefa mér þó mér gremjist það að hann sé enn að reyna að flytja sömu váfréttirnar og hann gerði fyrir ári síðan, sem hefur komið í ljós að áttu ekkert við rök að styðjast (Gripið fram í.) um að hér væri verið að flytja Hóla í Hjaltadal, Hvanneyri og Reyki í Ölfusi upp á Keldnaholt. Það er ekkert á dagskrá. Það er á dagskrá þess landbrh. sem hér stendur og ríkisstjórnarinnar að styrkja þessar stofnanir landbúnaðarins á þeim stöðum sem þær eru, styrkja þær enn frekar.