Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:52:43 (5026)

2001-02-27 15:52:43# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bæta við örfáum orðum. Ég held að varðandi vinnu landbn. að þessu máli sé mjög nauðsynlegt að hæstv. landbrh. nesti starfsmenn sína í landbrn. vel, sem sagt stefnu landbrn. varðandi landbúnaðarrannsóknir, varðandi landbúnaðarmenntun og menn viti nákvæmlega á hvaða brautir þeir eru að fara. Eins og ég segi, ef á að gera svona kerfisbreytingu, þá vitum við nánast til hvers hún leiðir. Við vitum hvað hún mun þýða fyrir RALA. Við vitum á hvað svona breytingar hafa kallað hjá öðrum stofnunum. Ekki er boðlegt hér í þinginu að menn fjalli um svona mál án þess að átta sig á því hvað þeir eru að gera til lengri tíma litið. Vel getur verið að ýmislegt gott komi út úr svona málum og vafalaust gerist það. Það hefur gert það hjá hinum stofnununum en okkur hefur yfirleitt láðst að leggja niður fyrir okkur þróunina sem við eigum þó að geta séð fyrir, þróunina sem er verið að setja af stað með lagabreytingum af þessu tagi. Það er það sem ég er fyrst og fremst kalla eftir. Það kallar á skýra stefnumörkun gagnvart menntunarsetrunum öllum, á Hólum og Garðyrkjuskólanum og á Hvanneyri og náttúrlega ekki síður hlutverk RALA og hvernig RALA á að þróast í nýju umhverfi ef menn ætla að fara þessa leið. Það liggur alveg himinklárt fyrir, virðulegi forseti.