Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:58:21 (5028)

2001-02-27 15:58:21# 126. lþ. 77.7 fundur 133. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðslur) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem ég flyt ásamt hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, Jóhanni Ársælssyni, Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Þetta frv., herra forseti, hefur verið flutt á nokkrum þingum og var fyrst lagt fram á 120. löggjafarþingi þannig að nú er verið að flytja þetta frv. í sjötta sinn en það fjallar um að auka rétt kjósenda til að fara fram á að lagafrv., sem Alþingi hefur samþykkt, verði borið undir þjóðaratkvæði.

Tillögugreinin felur í sér, herra forseti, að fimmtungur kosningabærra manna í landinu geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrv. sem Alþingi hefur samþykkt en krafan þarf að vera studd undirskrift fimmtungs kosningabærra manna og hún skal berast forseta lýðveldisins Íslands eigi síðar en 30 dögum eftir samþykkt lagafrv. á Alþingi. Undirskriftarsöfnun og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu frestar ekki gildistöku laganna. Efnt skal til þjóðaratkvæðagreiðslu eigi síðar en 45 dögum eftir að forseti hefur úrskurðað um lögmæti kröfunnar. Til að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar séu bindandi þarf meira en helmingur þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu að greiða atkvæði gegn gildi laganna þó þannig að ávallt greiði fimmtungur kosningarbærra manna atkvæði gegn gildi laganna.

Samkvæmt 1. gr. frv., herra forseti, á síðan að setja nánari reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. um kynningu á lögunum sem greiða skal atkvæði um og sem skulu settar í lög.

[16:00]

Víða í grannlöndum okkar hefur verið farin sú leið að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu og auka þannig lýðræðislegan rétt fólksins. Samkvæmt stjórnskipan okkar getur fólk einungis haft áhrif með atkvæði sínu í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, svo og við kjör forseta lýðveldisins. Telja verður að lýðræðinu séu þannig nokkur takmörk sett, herra forseti, ekki síst þar sem samsteypustjórnir virðast mun algengari hér en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þannig veit fólk hér á landi sjaldnast hvaða ríkisstjórnir það er að kjósa yfir sig með atkvæði sínu, auk þess sem auðveldara er fyrir samsteypustjórnir að semja sig frá loforðum og kosningastefnuskrám sínum.

Oft er það svo að upp koma stór mál á kjörtímabilinu sem aldrei hefur verið rætt um í undangengnum kosningum. Þau ganga kannski á skjön við stefnu flokka og það sem þeir hafa sett fram. Því er full ástæða til að fólk sem greitt hefur flokki atkvæði í trausti ákveðinnar stefnu hafi rétt, bregði flokkurinn frá stefnu sinni, til að láta vilja sinn í ljós í meiri háttar málum sem varða hag þjóðar og almennings.

Með síauknu alþjóðasamstarfi er enn brýnna að fólk hafi möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki síst þar sem um er að ræða mikilvæga alþjóðlega samninga sem geta haft úrslitaáhrif á framtíð þjóðarinnar. Það er því mikilvægt, herra forseti, að í stórum málum sem snerta verulega hag þegnanna og afkomu þjóðarinnar sé þessi leið fyrir hendi. Það treystir lýðræðið í landinu og veitir stjórnmálaflokkum meira aðhald en þeir hafa nú.

Aðeins er mælt fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu á þremur stöðum í stjórnarskránni: Í 11. gr., ef 3/4 hlutar alþingismanna greiða atkvæði með tillögu um að forseti lýðveldisins verði leystur frá embætti; í 26. grein, ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar; í 79. gr., ef með lögum eru gerðar breytingar á kirkjuskipaninni. Þar er ekki að finna neitt ákvæði sem gerir þegnum landsins kleift að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál sem Alþingi hefur til umfjöllunar.

Það hefur oft komið til tals hér á hv. Alþingi að auka þennan rétt fólksins. Í gegnum árin og síðustu áratugi hafa iðulega verið lagðar fram tillögur í þessa veru en þær ekki náð fram að ganga. Réttur fólksins nú í upphafi 21. aldar er því enn bundinn við að hafa áhrif á framgang einstakra mála sem eru bundin við atkvæðagreiðslur um minni háttar mál, svo sem opnun á áfengisútsölum eða hvort leyfa skuli hundahald í einstökum sveitarfélögum, (Gripið fram í.) sem er mjög mikilvægt, eins og kallað er fram í utan úr sal.

Þessu viljum við flutningsmenn breyta. Það þekkja allir að forsetinn hefur aldrei frá stofnun lýðveldisins beitt heimild 26. gr. stjórnarskrárinnar um að synja staðfestingar lagafrumvarpi sem Alþingi hefur samþykkt. Ákvæðið felur aðeins í sér frestandi neitunarvald. Synji forsetinn um staðfestingu verður að bera lagafrv. undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Af framkvæmdinni má því ráða að þetta vald forsetans til að færa valdið frá þinginu til þjóðarinnar sé í raun nánast marklaust. Við þekkjum það a.m.k. frá tveim stórum málum á undangengnum árum að alvarlega hafi komið til tals hvort forsetinn mundi synja um staðfestingu á lagafrv., síðast núna í janúarmánuði þegar við fjölluðum um niðurstöðu Hæstaréttar í öryrkjamálinu og síðan varðandi EES-samninginn.

Ég held, herra forseti, að það komi fyllilega til greina að afnema þennan óvirka rétt forsetans, sem hægt er að kalla svo, neitunarvaldið sem forsetinn hefur, á sama tíma og við mundum heimila þjóðaratkvæðagreiðslu, til að mynda eftir þeirri leið sem hér er mælt fyrir, að fimmtungur kosningarbærra manna í landinu geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Eins tel ég vel koma til greina, þó að það sé ekki sett fram í þessu frv., að minni hluti alþingismanna geti farið fram á slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég man ekki betur en að sú skipan mála sé viðhöfð í Danmörku og fleiri ríkjum til að auka lýðræðislegan rétt minni hluta þingmanna og þeir hafi þennan kost, að geta áfrýjað stórum málum til þjóðarinnar. Þetta, herra forseti, er meginkjarni frv. sem við flytjum hér nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar. Í greinargerð er nánar lýst hvernig framkvæmdin á slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu gæti verið ef frv. yrði samþykkt.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er þetta í sjötta sinn sem málið er lagt fyrir þingið. Eitt sinn var m.a. óskað eftir því að nefndasvið Alþingis fjallaði um málið, þ.e. að lögfræðingar nefndasviðs Alþingis færu ítarlega yfir það meðan hlé væri á störfum þingsins yfir sumarmánuðina. Nefndasviðið skilaði mjög ítarlegu áliti um frv. sem m.a. leiddi til nokkurra breytinga á frv. þegar það var síðan flutt á þinginu þar á eftir. Það hefur a.m.k. í þrígang verið flutt í þeim búningi. Í minnisblaði nefndasviðs var farið ítarlega yfir tillöguflutning í þessu máli hér á hv. Alþingi. Það var farið ítarlega yfir fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu í ýmsum löndum. Þar kemur reyndar fram, herra forseti, það sem ég nefndi áðan, að í stjórnarskrám Norðurlandaþjóðanna, t.d. í dönsku stjórnarskránni, eru ákvæði þess efnis að þriðjungur þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt lagafrv. Ég hygg, herra forseti, að ef slíkt ákvæði hefði verið í gildi á síðustu árum þá hefði nokkrum sinnum komið til þess að á slík ákvæði hefði reynt hér í þingsölum.

Samkvæmt athugun nefndasviðs, herra forseti, hafa viðhorf kjósenda í nokkur skipti verið könnuð á fyrri hluta aldarinnar hér á landi eftir ályktanir Alþingis. Þar var ekki um að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur í þeirri mynd sem birtist í ákvæðum stjórnarskrárinnar og fela í sér synjunarvald þjóðarinnar heldur var um að ræða svonefndar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Nefnt er að á árinu 1908 og 1933 voru greidd atkvæði um innflutningsbann á áfengi og árið 1916 um þegnskylduvinnu. Jafnframt hefur tvisvar komið til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna fyrirmæla stjórnarskrár. Á árinu 1918 var frv. til svonefndra sambandslaga lagt undir atkvæði þjóðarinnar og samþykkt og lögin staðfest af konungi. Þau gengu í gildi 1. desember 1918. Árið 1944 voru síðan greidd atkvæði um lýðveldisstjórnarskrána og niðurfellingu sambandslagasamningsins samkvæmt fyrirmælum þeirra stjórnskipunarlaga sem þá giltu.

Þess er einnig getið í skýrslu nefndasviðsins að á síðari hluta aldarinnar hafi verið lagður fram fjöldi þingsályktana og breytingartillagna um að ákveðin málefni væru borin undir atkvæði þjóðarinnar, þar á meðal um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, um samkomustað Alþingis, álbræðslu í Straumsvík, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu, prestskosningar, efnahagsfrv. forsrh. og aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Auk þess hefur verið algengt að fram hafi komið slíkar tillögur vegna breytinga á áfengislöggjöfinni. Jafnframt voru lagðar fram þáltill. á 83., 86., 89. og 90. löggjafarþingi, um undirbúning löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslu en urðu ekki útræddar utan ein, herra forseti, sem er athyglisvert. Hún var samþykkt. Þá þingsályktun samþykkti Alþingi árið 1970, herra forseti, og hún hljóðaði upp á að fela ríkisstjórninni að láta rannsaka hvort rétt væri að setja löggjöf um þjóðaratkvæði í mikilvægum löggjafarmálefnum og hvort rétt væri að setja grundvallarreglur þar um í stjórnarskrána. Skyldi ríkisstjórnin, ef hún teldi ástæðu til, láta semja lagafrv. um það efni. Afla skyldi sem fyllstra upplýinga um öll atriði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um reynslu annarra þjóða í þeim efnum. Síðan voru talin upp nokkur atriði í þáltill. sem flutningsmenn hennar vildu að könnuð yrðu nánar.

Herra forseti. Ljóst er að það hefur verið vilji fyrir því hér á þinginu, sem margoft hefur komið fram í þingmálum, að koma á þeim lýðræðislega rétti sem öruggt er að mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi sjá í stjórnarskránni. Það hefur verið kallað eftir því að slíkt sé sett í stjórnarskrána en aldrei, svo ég viti til, verið rætt í fullri alvöru um það hér í þingsölum, svo langt sem ég man, að setja slíkt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkar tillögur fást reyndar vart ræddar í nefnd þingsins, þ.e. sérnefnd sem skipuð er til að fara yfir tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, eins og þetta frv. felur í sér.

Yfirleitt er það svo, herra forseti, að þessar nefndir, þó þær séu skipaðar í kjölfar þess að mælt hefur verið fyrir máli eins og ég geri hér, eru ekki kallaðar saman. Þær eru yfirleitt undir stjórn eða formennsku meiri hlutans og ekki kallaðar saman. Þau mál hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á síðasta ári farið þannig að ég hef þurft, sem flutningsmaður frv., þegar kemur að lokadögum þingsins, að kalla eftir því hvort nefndin ætli ekki að koma saman til að fjalla um þau mál sem fyrir henni liggja. Oft eru það fleiri mál en þetta, um breytingu á stjórnarskránni, sem legið hafa fyrir slíkum nefndum. Þá hefur til málamynda verið settur á einn fundur til að fjalla um tillöguna, af því að eftir því er gengið af hálfu þeirra sem flutt hafa slík mál. Hins vegar er aldrei fjallað um slík mál af neinni alvöru, hvað þá að þau fái þinglega meðferð, herra forseti, hvorki í nefnd né að þau komi aftur til kasta þingsins til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu.

Þetta finnst mér mikill vansi, herra forseti, og ámælisvert í störfum þingsins, að mál sem þingmönnum eru hugleikin og snerta stjórnarskrána, eins og þetta mikilvæga mál um þjóðaratkvæðagreiðsluna, skuli fá slíka meðferð hér í þingsölum. Ég hef hvað eftir annað, herra forseti, kallað eftir því að á þessu verði gerðar betrumbætur. Ég geri það hér eina ferðina enn, að kalla eftir því að sú nefnd sem skipuð verður í kjölfar þessa frv. setjist yfir þetta mál af fyllstu alvöru þannig að reyna megi á vilja þingsins til að koma á þessum sjálfsagða og lýðræðislega rétti fólksins.

Það er í samræmi við, herra forseti, löggjöfina í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að slíkur lýðræðislegur réttur sé fyrir hendi og þarf ekki að því að spyrja, herra forseti, að þetta er sá réttur sem þjóðin vill að sé til staðar í stjórnarskránni. Það er ég alveg sannfærð um.

Herra forseti. Ég lýk hér máli mínu, hef hér með mælt fyrir þessu máli í sjötta sinn á sex árum. Ég vona að það komi einhvern tímann að því að ekki þurfi að mæla fyrir slíku máli áfram. Ég vona að við berum til þess gæfu að þetta mál, sem tryggir rétt fólksins til þjóðaratkvæðagreiðslu, verði að lögum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til sérnefndar samkvæmt þingskapalögum.