Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 16:56:22 (5033)

2001-02-27 16:56:22# 126. lþ. 77.9 fundur 147. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 148. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Vissulega er hægt að taka undir það með flutningsmanni að hér er stórmál á ferðinni. Raunverulega snýst málið um hvort þingið vilji halda hlut sínum gagnvart framkvæmdarvaldinu sem sífellt er að seilast til þess að vera með yfirgang gagnvart þinginu og misbjóða þingmönnum. Þetta þingmál snýst bæði um breytingar á hlutafélagalöggjöfinni og breytingar á þingsköpum, hvort vilji þingmanna standi til þess að fá þá aðstöðu sem þingmenn þurfa og þá möguleika til að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu. Staðreyndin er sú að í gegnum árin er sífellt að færast í vöxt að ríkisfyrirtæki sækjast eftir því að komast í skjól hlutafélagalaganna, m.a. til að þurfa ekki að veita þinginu nauðsynlegar upplýsingar sem þingið kallar eftir. Þess vegna er hér á ferðinni mjög stórt mál.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. flm. að það hefur gerst aftur og aftur, herra forseti, í þinginu að þingmenn eru að fá svör við eðlilegum fyrirspurnum sem þeir leggja fyrir ráðherra þar sem hæstv. ráðherrar smeygja sér undan í skjóli hlutafélagalaga, í skjóli upplýsingalaga að veita þingmönnum eðlilegar og réttmætar upplýsingar sem þingmenn biðja um til að geta sinnt sínu hlutverki. Þetta er óþolandi, herra forseti, og gengur ekki.

Nýjasta dæmið um þetta hef ég fyrir mér bara á þessum degi, herra forseti, sem er svar sem ég var að fá í hendurnar frá viðskrh. um málefni Búnaðarbanka Íslands og stjórnenda hans. Þar kallaði ég eftir upplýsingum að því gefna tilefni að ítrekað hafði komið fram, herra forseti, hjá þeim banka, Búnaðarbanka, sem að 73,8% hlut er í eigu ríkisins, bæði meint og staðfest brot á lögum um verðbréfaviðskipti, reglum um innherjaviðskipti og brot á jafnréttislögum líka sem ég taldi upp í fyrirspurn til viðskrh. í sjö töluliðum og óskaði eftir ýmsum upplýsingum um þessi mál og hver væru viðbrögð yfirmanns bankamála, viðskrh., við þessum meintu og staðfestu brotum sem bankinn hefur átt hlut að.

Hvert er svarið, herra forseti? Hvert er síðan svarið við þessum fyrirspurnum frá hæstv. viðskrh. sem ég fékk í hendurnar í dag? Hæstv. ráðherra leyfir sér að bjóða þinginu og þingmönnum upp á það í svari við þeirri fyrirspurn í sjö töluliðum að taka hvern einasta tölulið fyrirspurnarinnar upp og tína til inn í svar sitt eitthvað sem fram hefur komið í fjölmiðlum um þetta mál, sem þingmenn gátu lesið í Morgunblaðinu eða hlustað á í sjónvarpi. Það mætti ætla að hæstv. ráðherra teldi að þingmennirnir væru annaðhvort ekki læsir eða heyrðu ekki og gætu ekki hlustað á fréttir. Þetta er það eina sem kemur fram í svari ráðherrans að hún tínir upp það sem verið hefur í fréttum um þetta mál. Um það var ekki verið að spyrja, herra forseti. Verið var að spyrja um afstöðu ráðherrans til þessara tilteknu mála sem greint er frá í fyrirspurninni.

[17:00]

Hvernig svarar ráðherra þessu? Hún byrjar í löngu máli á að tilgreina ákvæði í hlutafélagalögunum þar sem ráðherrarnir hoppa í skjól ætíð og ævinlega til að þurfa ekki að svara fyrirspurnum þingmanna sem snerta m.a. stöðu fyrirtækja, hvort þau hafi farið rétt og eðlilega með almannafé og almannahagsmuni. Það er tíundað í löngu máli hvaða áhrif ráðherrann og bankinn geti skýlt sér á bak við til að þurfa ekki að svara fyrirspurnum. Þegar hæstv. ráðherra hefur síðan farið ítarlega í gegnum það þá segir hæstv. ráðherra að hún hafi óskað eftir upplýsingum og sjónarmiðum um þær spurningar sem ég lagði fyrir ráðherrann frá Búnaðarbanka Íslands, frá Búnaðarbankanum sjálfum sem liggur undir grun um að hafa brotið lög og er staðfest í ýmsum tilvikum. Þá á sá sem hefur verið ásakaður um að hafa brotið lög að svara þessari fyrirspurn, herra forseti. Það sem ráðherrann hefur síðan til málanna að leggja er að tíunda það sem fram hefur komið í fjölmiðlum um þetta mál. Búnaðarbankinn byrjar á að svara því að hann líti svo á að í fyrirspurninni sé farið fram á upplýsingar sem hlutafélagi væri ekki skylt að svara. Þannig byrjar Búnaðarbankinn að svara því. Síðan vísar bankinn til skýrslu prófessors Stefáns Más Stefánssonar um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins sem forsrn. lét vinna á árinu 1997. Í þá skýrslu, sem þingmennirnir hafa því miður ekki farið ofan í sem skyldi og látið kanna sérstaklega, hafa ráðherrarnir ævinlega og ætíð hlaupið í skjól þar sem þessi skýrsla Stefáns Más Stefánssonar, sem hæstv. forsrh. lét gera. Þetta er heilbrigðisvottorð sem ráðherrarnir hafa reynt að fá sér til að þurfa ekki að svara þinginu og síðan er hlaupið í skjól í hlutafélagalögunum.

Síðan segir hæstv. viðskrh. að það sé ekki hlutverk sitt að segja til um hvort lög eða reglur hafi verið brotin í málinu. Maður skyldi halda að hér væri ekki á ferðinni ráðherra, sem er yfirmaður bankamála í landinu, að svara þessari fyrirspurn. Hæstv. ráðherra hefur ekkert til málanna að leggja og í svari við fyrirspurn segir að hún hafi engar frekari upplýsingar um málið. Það sé ekki í verkahring hennar sem ráðherra að skera úr hver sé ábyrgur ef um brot sé að ræða á ákveðnum lögum varðandi viðurlög við þeim meintu og staðfestu brotum sem Búnaðarbankinn á hlut að og síðan þegar spurt er um hver séu viðbrögð ráðherrans við þessum margítrekuðu brotum bankans á lögum og reglum, þá segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Ráðherrann hefur hins vegar lýst áhyggjum sínum af fréttum af málefnum Búnaðarbanka Íslands og kallar eftir skýringum í einstökum tilvikum.`` Það eru áhyggjur ráðherrans. Það kemur fram að hún hafi áhyggjur. Síðan kemur að ráðherrann hafi lýst því yfir að hún líti alvarlegum augum á fréttir um ákvörðun Samkeppnisráðs og ákvörðun fjármálaeftirlitsins að vísa máli er varða meint innherjaviðskipti Búnaðarbankas til ríkislögreglustjóra í einu þeirra atriða sem spurt er um í þessari fyrirspurn. Það er sem sagt borið á borð, herra forseti, fyrir þingið sem svar við þessum fyrirspurnum í fyrsta lagi í ítrekuðu og löngu máli þær reglur og lög sem ráðherrarnir geta hlaupið í skjól í. Síðan er þinginu boðið upp á að sá sem verið er að spyrja um, þ.e. Búnaðarbankinn í þessu tilviki sem liggur fyrir að hefur ítrekað hagað málum þannig að um er að ræða ýmist meint eða staðfest brot á lögum um innherjaviðskipti og lögum um verðbréfaviðskipti, er reyndar látinn svara þessum spurningum og að öðru leyti vísar ráðherrann í það sem hefur komið fram opinberlega og í fjölmiðlum um þessi mál.

Herra forseti. Ekki er boðlegt að standa þannig að málum. Ráðherrann vísar einungis í það að hún geti haft afgerandi áhrif á þær ákvarðanir sem eru teknar á hluthafafundi að því er þessi mál varðar. Ég held að þetta sýni, herra forseti, í hnotskurn að taka þurfi á þessu máli eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur frumkvæði að í þessum tveimur málum ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Raunverulega ber ráðherrann sig þannig að í þessu svari eins og hún hafi ekkert vald. Hún segir t.d. að Búnaðarbanka Íslands sé ekki skylt að veita ráðherra gögn í málinu o.s.frv. þannig að það virðist ekki bara vera að þingið hafi ekki eðlilegan aðgang að upplýsingum eins og það ætti að hafa, heldur virðist, a.m.k. ef marka má orð ráðherrans í þessu svari, vald ráðherrans vera nánast ekkert til að biðja þá sem um er spurt um eðlilegar upplýsingar. Í þessu tilviki hefði ráðherrann auðvitað átt að leita til Fjármálaeftirlitsins til þess að afla þá í gegnum Fjármálaeftirlitið þeirra upplýsinga sem um er spurt í þessu efni. Vitaskuld hefði hæstv. ráðherra líka átt að láta fara fram athugun á vettvangi eigin ráðuneytis á því sem um er spurt þannig að hún geti svarað þinginu eðlilega í þessu máli.

Þetta vildi ég draga fram, herra forseti, og mér finnst það með öllu óþolandi, hvernig framkvæmdarvaldið kemst aftur og aftur upp með að svara ekki þinginu. Mér finnst, herra forseti, fullt tilefni m.a. að því gefna tilefni sem kemur nú fram í svari hæstv. viðskrh. að fram fari ítarleg umræða á hv. Alþingi, herra forseti, um hlutverk þingsins annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar og samskipti þessara tveggja valdaþátta í stjórnskipan landsins nema þingmenn vilji búa við þessa kúgun sem framkvæmdarvaldið beitir þingmenn aftur og aftur. Mér finnst löngu orðið tímabært að þingmenn setjist yfir það hvernig þessum málum á að vera háttað í framtíðinni eða hvort þeir ætli bara að una því að framkvæmdarvaldið kúgi þingið aftur og aftur og misbjóði þinginu aftur og aftur með því að veita þinginu ekki eðlilegar upplýsingar sem um er spurt, herra forseti. Þess vegna hvet ég til þess að farið verði í ítarlegar umræður í þinginu, helst langar utandagskrárumræður þar sem við förum ofan í það hvernig við getum tekið á stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og sérstaklega því hvernig þinginu er aftur og aftur misboðið með því að ráðherrar hunsa vilja þingmanna til þess að veita þeim eðlileg svör.

Þetta vildi ég láta koma fram að þessu gefna tilefni. Ég er einn flutningsmanna að þessu frv. og vildi með þessu innleggi í umræðuna sýna hve brýnt er að samþykkja þetta mál sem kveður á um það að hlutafélögum sem teljast til E-hluta ríkisreiknings og ríkið á að hálfu eða meira sé skylt að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinbert málefni og ríkisfyrirtækjum og að slík ákvæði komi líka í þingsköp Alþingis. Það er rétt sem segir í greinargerð með þessu frv., og þar er vitnað til skýrslu Páls Hreinssonar, að leggja verður til grundvallar að réttur alþingismanna samkvæmt ákvæði stjórnarskrárinnar til aðgangs að upplýsingum um opinbert málefni ræðst ekki af upplýsingalögum heldur byggist hann á sjálfstæðri heimild sem er að finna í 54. gr. stjórnarskrárinnar. Og 54. gr. stjórnarskrárinnar er alveg skýr í því efni að til að rækja eftirlitshlutverk sitt og veita ríkisstjórn aðhald hefur Alþingi stjórnarskrárvarinn rétt til þess að afla upplýsinga frá ráðherra. Hér er verið að hnykkja á því með þessu frv. að þessu gefna tilefni að þessi réttur þingmanna er aftur og aftur hunsaður af framkvæmdarvaldinu, af ráðherrum. Þess vegna er eðlilegt og réttmætt að þingið sameinist um að samþykkja þessar lagabreytingar til þess að það fái þá tæki til að sinna því hlutverki sem það hefur samkvæmt stjórnarskránni.