Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 17:27:05 (5036)

2001-02-27 17:27:05# 126. lþ. 77.9 fundur 147. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 148. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa lagt orð í belg og varpað, að ég hygg, ljósi á mikilvægi þess að þessi mál gangi fram.

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist yfir því sem ég vil kalla metnaðarleysi hv. þm. fyrir þjóðþinginu og þeim vinnustað sem þeir hafa verið kjörnir til. Hér er ekki einn einasti þingmaður stjórnarliða í salnum og við þessa umræðu, ekki einn einasti maður úr allshn. sem mun taka þetta mál til meðferðar. Ég spyr og velti því fyrir mér: Er metnaðarleysi stjórnarliða og raunar uppgjöf þeirra gagnvart framkvæmdarvaldinu svo alger, svo afdráttarlaus að þeir bera það ekki við einu sinni að ræða þau mál sem lúta að grundvallaratriðum í samskiptum löggjafarþingsins, þeirrar eftirlitsstofnunar sem Alþingi er og aftur framkvæmdarvaldsins? Ég hafði satt að segja trúað því og velti því upp, til að mynda nýir og ferskir þingmenn sem hafa setið hér í hálft annað ár sem maður skyldi ætla að hefðu einhverjar hugsjónir í þessa veru, hvar eru þeir? Ég er satt að segja hlessa yfir þessu og tel nauðsynlegt að halda þessu á lofti þótt þeir hinir sömu séu ekki viðstaddir til að hlýða á mál mitt. Það kann að virka undarlega en ég vil festa það í bækur þingsins að ég hafi sagt þetta hér. Og ég vona að þessi áhrínsorð hafi eitthvað að segja þegar og ef þessir sömu þingmenn lesa þingtíðindi og reyna að kynna sér þá umræðu sem hér á sér stað.

En þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti, herra forseti, að svona er í pottinn búið. Ég trúði því satt að segja að þannig væri það að a.m.k. þeir aðilar sem tækju viðkomandi mál til umfjöllunar í nefndum síðar reyndu að freista þess að hlýða á 1. umr. mála en það er greinilega að verða liðin tíð. Þetta veldur mér miklum áhyggjum og ég tel að yfirstjórn þingsins þurfi auðvitað að ræða þessi mál og skoða. Svona getur þetta ekki gengið lengur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég nefndi að menn hefðu vakið máls á ýmsum hliðum þessa máls. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom til að mynda með glænýtt dæmi einmitt í þá veru sem frv. lýtur að. Hún er að fá meint svar við eðlilegum fyrirspurnum um gang mála í mikilvægu fyrirtæki þjóðarinnar sem er að 70% hluta í eigu ríkissjóðs en fær engin svör frekar en fyrri daginn. Nú er því borið við sem er satt að segja nýtt af nálinni að ráðherrann eigi engin svör eða ráðherrann telji sig ekki hafa heimild til að sækja slík svör til stjórnarmanna sem hún skipar sjálf sem handhafi 70% eignarhlutar í fyrirtækjum. Þetta er náttúrlega eins og hver önnur þvæla, herra forseti, fyrirgefið orðbragðið. Það er út af fyrir sig ekki hægt að taka svona alvarlega.

Þessi sami ráðherra, hæstv. viðskrh., hefur í þessu samhengi einmitt verið að tala um það opinberlega að skipta þurfi um mann og annan í þessu bankaráði vegna þess að hún telji þar breytinga þörf. En allt í einu bregður svo við að samkvæmt þeim upplýsingum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í meintu svari vil ég kalla það sem hún gerði grein fyrir áðan, þá telur ráðherrann sig allt í einu ekki hafa heimild til að spyrja þessa sömu menn út úr. Þetta er óþolandi.

Herra forseti. Síðan heldur þetta auðvitað ekki þegar til kastanna kemur. Ég nefni til sögunnar dæmi til að mynda af Íslandspósti. Ef hæstv. ráðherra ætti að vera sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum, þá ætti hæstv. samgrh. ekki að taka þátt í umræðu um niðurlagningu á starfsstöðvum Íslandspósts vítt og breitt um landið sem þingmenn hafa gagnrýnt harðlega og sumpart með réttu. Þá ætti hæstv. samgrh. að segja sem svo: Hér er um einkaréttarlegt fyrirtæki að ræða og það getur haft áhrif á samkeppnisaðila og ég má ekki tala um þetta. En auðvitað hefur hann ekki þorað að gera það og viljað ræða þessi mál með einum eða öðrum hætti. Hér rekst auðvitað hvað á annars horn.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Greinargerðin talar sínu máli. Ítarleg umræða hér þrátt fyrir allt talar sínu máli. Ég vildi hins vegar að lyktum að fenginni ábendingu vissra manna draga til baka fyrri tillögu mína um meðferð máls í nefndum og gera það að tillögu minni að bæði þessi mál fari allshn. og málið verði á forræði hennar en hún geti þá eftir því sem ástæður eru til og vilji hennar stendur til kallað eftir umsögn efh.- og viðskn. um þann þátt málsins eða það frv. sem að þeirri nefnd lýtur. En ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi frv. tvö sem eru síamstvíburar og náskyld fari saman um nefndir þingsins og fái þar efnislega umfjöllun undir einum hatti.

Tillaga mín, herra forseti, er sú að málið fari til allshn. og fái þar skjóta og góða afgreiðslu.