Viðvera ráðherra og stjórnarþingmanna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 17:34:57 (5038)

2001-02-27 17:34:57# 126. lþ. 77.93 fundur 333#B viðvera ráðherra og stjórnarþingmanna# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hagar þannig til að ég hef einnig mál á þessari dagskrá og stóð til að ég mælti fyrir því í dag. Ég óska eftir því að það verði tekið af dagskránni. Mér finnst satt að segja erfitt að þurfa að mæla fyrir máli þegar það liggur fyrir að hér eru fjórir þingmenn í þinghúsinu á þessari stundu. Ég tel að full ástæða sé til þess að ná fram umræðum um þetta mál. Ég tel þess vegna að heppilegra sé að fresta því heldur en að taka það fyrir í dag og óska eftir því að því verði frestað.

Ég tel einnig að full ástæða sé til þess að forsetadæmið taki það til umræðu hvort ekki þurfi að tryggja einhvern lágmarksfjölda þingmanna í sölum Alþingis til að þingstörfum verði haldið áfram. Farið verði yfir það hvort ekki sé rétt að sú regla verði höfð uppi að það sé þá a.m.k. einhver lágmarksfjöldi til staðar þannig að Alþingi sýni þó þeim málum sem eru á dagskrá og eru til umfjöllunar þá virðingu að tryggt verði að einhver athygli og eftirfylgni sé í að fylgjast með því hvað hér fer í gegn því að það gerist auðvitað ekki með öðru en að menn taki þátt í umræðum og fylgist með því sem hér fer fram.