Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:38:29 (5041)

2001-02-28 13:38:29# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Það er augljóst af bréfi þingmanna Samfylkingarinnar að þeir virðast standa í þeirri meiningu að þingskapalög gildi ekki þegar þeir eiga í hlut. Það er alveg ljóst að það er á forræði nefndar hvort hún tekur upp mál að eigin frumkvæði. Þetta eru leikreglur sem allir þingmenn þurfa að þekkja og hlíta. Það var einfaldlega ekki meiri hluti í menntmn. til að verða við ósk þingmanna Samfylkingarinnar í þessu efni og þar með er málinu lokið og stoðar ekki að klaga í forseta.

Ég hef hins vegar bent þingmönnum Samfylkingar á að þingmál Guðmundar Árna Stefánssonar hlýtur að verða til umræðu á þinginu síðar og eftir að því er vísað til nefndar gefst auðvitað tækifæri til að fjalla um það þar. Einnig hef ég bent þingmönnum Samfylkingar á að þeir geta auðveldlega orðið sér úti um svör beint frá menntmrh. með því að leggja fyrir hann fyrirspurn á Alþingi en það er alveg ljóst að þeir virðast af einhverjum ástæðum ekki treysta sér til þess.