Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:42:12 (5043)

2001-02-28 13:42:12# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Rétt er að byrja á því að þakka hæstv. forseta skjót og skýr svör við bréfi okkar hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur frá því í gær. Það er hins vegar ástæða fyrir því að bréfið var sent og óskað eftir því að menntmn. tæki þetta mál fyrir. Það er sú einfalda ástæða að hér er um stórt skref að ræða til breytinga á þeim hefðum sem verið hafa í rekstri grunnskóla í landinu.

Einnig er ljóst að hæstv. menntmrh. er að túlka 53. gr. grunnskólalaga á algjörlega nýjan hátt. Við höfðum aflað okkur upplýsinga um það og látið fara í gegnum öll gögn sem tiltæk eru varðandi grunnskólalög frá 1974 og þær breytingar sem á þeim hafa verið gerðar frá 1991--1995 og hvergi er að finna, herra forseti, stafkrók í þá átt sem hæstv. menntmrh. er nú að sveigja þessa grein.

Þess vegna, herra forseti, var talið nauðsynlegt að menntmn. færi faglega yfir málið. Það yrði umræða sem skoðaði allar hliðar málsins og síðan kæmumst við að niðurstöðu, vonandi í sameiningu, um það hvaða leið væri farsælust í málinu.

Herra forseti. Það verður að vekja athygli á því að ef hæstv. ráðherra hefur fullan hug á því að þessi leið verði farin í grunnskólum landsins væri að sjálfsögðu eðlilegast að hæstv. ráðherra legði fram á þinginu tillögu til lagabreytinga á grunnskólalögunum. En, herra forseti, það skyldi þó ekki vera svo að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að í sölum Alþingis er ekki meiri hluti fyrir þeirri leið sem hæstv. ráðherra er nú að stefna á?