Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:46:06 (5045)

2001-02-28 13:46:06# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í bréfaskriftir nefndarmanna í menntmn. og hæstv. forseta. Ég ætla hins vegar að lýsa mikilli furðu minni á þeirri ótrúlegu stífni og þeim viðhorfum sem birtast í því að þingmenn Sjálfstfl. í menntmn. skuli hafna svo sjálfsagðri beiðni og réttmætri og rökstuddri ósk um að taka til skoðunar mál í nefndinni. Það er ekki farið fram á meira en að ræða í þingnefnd tiltekið álitamál og fá fulltrúa viðkomandi fagráðuneytis inn á fund til að ræða um það.

Þessari ósk er hafnað og maður hlýtur að spyrja sig: Hvert stefnir í störfum þingnefnda ef þetta viðhorf meiri hlutans verður ráðandi og birtist í fleiri tilvikum, t.d. gagnvart óskum um að fá gesti til viðtals við nefndina, taka upp mál til skoðunar o.s.frv. Ég segi, herra forseti: Þetta er geysilega óskynsamlegt og í raun hættulegt viðhorf hjá formanni í þingnefnd sem hér birtist í ræðu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur áðan og endurspeglast í afstöðu meiri hlutans í menntmn., fulltrúa Sjálfstfl. Þetta er ekki til þess fallið að skapa jákvætt andrúmsloft og gefa þá tilfinningu að það sé til einhvers að vinna að málum, upplýsa hluti, taka mál fyrir og ræða þau í þingnefndum. Þessi valdboðsvaldhrokameirihlutahugsunarháttur er stórhættulegur.

Hér er hlutunum ruglað saman. Auðvitað ræður meiri hlutinn efnislegri afstöðu og niðurstöðu í málum af þessu tagi að lokum en það á ekki að beita valdi meiri hlutans til að hindra að mál séu skoðuð, rædd og upplýst. Það er beinlínis gegn þingræðinu og lýðræðinu og þá eru menn komnir út í miklar ógöngur, herra forseti. Ég tel að ástæða sé til að taka þessi mál upp á almennum grundvelli og mér finnst að funda ætti um þau með formönnum þingnefnda, forsætisnefnd og formönnum þingflokka og fara yfir það hvert menn stefna með vinnubrögðum af þessu tagi.