Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:49:21 (5047)

2001-02-28 13:49:21# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), TIO
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það hefur ekki komið fram við þessa umræðu hvernig stendur á því að hv. þm., sem hér hóf umræðu og kom fram sérstaklega með beiðni innan menntmn., hefur ekki nýtt sér fyrirspurnarformið. Það hefur ekki verið skýrt hér. Til hvers má rekja þessa feimni við fyrirspurnarformið?

Það liggur ljóst fyrir að hv. þm. hafði þau úrræði sem þingsköpin bjóða honum upp á. Hann gat spurt hæstv. menntmrh. með einfaldri fyrirspurn með hvaða hætti hann rökstyddi sitt mál. Það hefði verið afar auðvelt að fara fram á skriflegt svar við slíkri fyrirspurn, sem hefði að sjálfsögðu haft það gildi að upplýsa þingmanninn um það sem spurt er um. Hvers vegna er þess þá krafist að fara með slíkt mál í nefndir?

Einnig vekja mikla athygli í þessari umræðu þau ummæli að troðið sé á lýðræðinu í nefndinni. Það liggur nefnilega fyrir og hefur verið síendurtekið í þingsalnum að minni hlutinn telur brotið á sér þegar komið er í veg fyrir að minni hlutinn stýri starfi nefnda. Málið er ekki erfiðara en það. Nefndin kaus að taka þetta mál ekki inn í nefndina. Um það var tekin ákvörðun með lýðræðislegum hætti og bent á það í umræðu í nefndinni að þingmaðurinn hefði öll úrræði til að fá svar við fyrirspurn sinni eftir öðrum leiðum. Tilgangurinn var heldur ekki sá. Það kom fram í umræðunni hver tilgangurinn var. Bréfið var sent fjölmiðlum áður en það var sent forseta. Tilgangurinn var að búa til úr þessu máli einfalt lítið fjölmiðlafár.