Hlutafélög

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:03:41 (5056)

2001-02-28 14:03:41# 126. lþ. 78.7 fundur 148. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef skilning á því að forseti velti eilítið vöngum yfir því hvert þetta mál á að fara, þ.e. til hvaða fagnefndar. Ég sem 1. flm. þessa frv. velti eilítið vöngum yfir því sjálfur í framsögu í gær en að bestu manna yfirsýn varð niðurstaða sú, þó óhefðbundin væri, að allshn. hefði forræði á málinu í ljósi þess að málið er nátengt og raunar samtengt öðru dagskrármáli sem rétt í þessu var vísað til allshn. og laut að þingsköpum Alþingis. Með öðrum orðum hanga þessi tvö frumvörp hvort með öðru og voru rædd undir sama hatti í gær.

Ég er algerlega sáttur við það að menn setjist eilítið yfir það og skoði nánar með hliðsjón af þingsköpum og hefðum og venjum í þessu sambandi en legg megináhersluna á það að þessar tvær nefndir skoði þá málin í réttu samhengi.