Setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:16:23 (5059)

2001-02-28 14:16:23# 126. lþ. 79.1 fundur 427. mál: #A setning reglna um kosningar skv. 26. gr. stjórnarskrár# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég er í öllum aðalatriðum sammála hæstv. forsrh. hvað varðar túlkun á þessu ákvæði og stöðu þess þangað til kom að niðurstöðunni. Mér fannst í raun og veru allar röksemdir hníga að því að með því að menn telji að beiting þessa ákvæðis stjórnarskrárinnar sé ekki óhugsandi og í ljósi þess að fjölmargar spurningar vakna um hvernig skuli þá með farið og ég deili þeim að mestu leyti með hæstv. forsrh., t.d. um afar afdrifaríkan hlut eins og tímasetningu slíkrar atkvæðagreiðslu, hvort hún eigi að fara fram þá sem allra fyrst eftir að þessar aðstæður koma upp, þannig að það millibilsástand sem skapast verði sem styst og þannig að menn væru til að mynda ekki búnir að rífa Bernhöftstorfuna áður en vilji þjóðarinnar kæmi í ljós svo það dæmi sé tekið.

Ég held að einsýnt sé að setja þurfi lög um framkvæmd þessarar kosningar. Mér finnst ankannalegt að láta þetta stjórnarskrárákvæði standa eins og það er. Umræður um mögulega beitingu þess eru í lausu lofti vegna þess að þá vakna allar þessar spurningar sem hér er hægt að velta upp um hvaða afleiðingar beitingin mundi hafa og hvernig ætti að standa að kosningunni o.s.frv. Ég hefði því talið að rökrétt niðurstaða af þessu væri sú að það væri ekki seinna vænna eftir rúma hálfa öld að útfæra hver væri merkingin með því að þetta ákvæði stæði svona í stjórnarskránni eða hitt að endurskoða ákvæðið sjálft og þar með fara í grundvallarendurskoðun á þessum veigamiklu atriðum sjálfrar stjórnskipunarinnar og er þá ekkert í lítið ráðist.

Það er reyndar næsta fyrirspurn á dagskrá, herra forseti, sem snýr að því hvort hæstv. ráðherra hyggist setja á fót endurskoðunarnefnd, þannig að við skulum geyma umræður um það þangað til, en það eru vonbrigði að hæstv. ráðherra skuli ekki halda því opnu að svona reglur eða lög verði sett.