Skipan stjórnarskrárnefndar

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:32:14 (5065)

2001-02-28 14:32:14# 126. lþ. 79.2 fundur 428. mál: #A skipan stjórnarskrárnefndar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég tel eðlilegan hlut miðað við venjur okkar og stjórnskipun að beina fyrirspurnum um frumkvæði í þessum efnum til hæstv. forsrh. Ekki er á nokkurn hátt fólgið í þeim mat á stöðu Alþingis gagnvart því o.s.frv. Eingöngu er vitnað til þeirrar venju og hefðar í störfum okkar og svo stjórnskipunar sem við búum við að þessi mál heyra undir forsrh. Venjan hefur líka verið sú að allt slíkt starf hefur verið unnið í samstarfi við alla stjórnmálaflokka þannig að ég tel ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að valdstofnanir eða valdþættir þjóðfélagsins komi ekki allir eðlilega að því.

Ég fagna svörum hæstv. forsrh., sérstaklega hvað það varðar að hefjast handa um þetta mál og ég get verið í öllum aðalatriðum sammála því sem hæstv. ráðherra sagði hér að e.t.v. sé rétt að líta meira inn á við og taka fyrir tiltekna kafla stjórnarskrárinnar, t.d. I. og II. kaflann sem lúta að stjórnskipun landsins. Þar með fær hin umdeilda, eða umtalaða skulum við segja, 26. gr. einnig sjálfkrafa skoðun og samskipti valdhafanna. Þar koma ýmsir hlutir upp, svo sem eins og hlutverk forseta og forsrh. varðandi setningu eða slit Alþingis og ýmsir slíkir hlutir sem þarft er að fara yfir.

Ég hvet hæstv. forsrh. til að hefjast handa. Ég held að það færi vel á því að ný endurskoðunarnefnd hæfi störf á aldamótaárinu, árinu 2001. Henni á hins vegar engin tímamörk að setja og það á að líta svo á að starfstími hennar sé algerlega óháður kjörtímabilum. Það leiðir af sjálfu sér að fulltrúar allra flokka samkvæmt hefð koma að þessu starfi og ber að hafa það algerlega til hliðar við allar sviptingar í stjórnmálum og dægurmálum. Mér fyndist því fara vel á því að hæstv. forsrh. í samráði við stjórnarflokkana hrinti þessu starfi úr vör.