Sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:41:05 (5069)

2001-02-28 14:41:05# 126. lþ. 79.3 fundur 435. mál: #A sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil, sem formaður nefndarinnar, upplýsa það hér vegna fyrirspurnar hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, að þegar bréfið var komið í mínar hendur var strax kallað saman til fundar og nú hafa þegar verið haldnir tveir fundir, þ.e. 5. febrúar og 26. febrúar sl. og þriðji fundur er ákveðinn 26. mars.

Það sem fram hefur komið er að þegar ég ásamt fleiri hv. þm. lögðum fram þessa þáltill., að gefnu tilefni, vegna skipunar nefndar sem fyrrv. forsrh. skipaði í mars 1991 --- hún hélt aðeins einn fund --- þá töldum við nauðsynlegt að skoða þetta mál, einkum í ljósi þess sem hafði gerst á vinnumarkaðnum áður þegar fimmtugir menn voru taldir of gamlir á vinnumarkaðnum. Það kom til m.a. vegna atvinnuleysis og annarra þeirra ástæðna sem þá voru. Nú hafa hins vegar miklar breytingar orðið.

Nú er það svo að þessi nefnd þarf að líta til tveggja átta. Annars vegar til þeirra sem vilja hætta fyrr en lífeyrisaldur segir til um og hins vegar til þeirra sem hafa náð lífeyrisaldri en hafa heilsu og getu til að vinna lengur. Vandamálið sem snýr að nefndinni er það hvernig á að fara með þá sem vilja hætta áður en löggildur aldur hefur færst yfir eða lífeyrissjóðsaldri hefur verið náð. Það eru lífeyrissjóðsvandamálin sem blasa við í hnotskurn.