Örorkubætur

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:49:28 (5074)

2001-02-28 14:49:28# 126. lþ. 79.4 fundur 354. mál: #A örorkubætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. veit að þær reglur sem hér um ræðir hafa verið óbreyttar í nokkuð langan tíma, með þeim undantekningum þó að tryggingaráð getur mildað áhrif þeirra.

Á undanförnum árum hefur þróunin verið sú að þeim öryrkjum fer heldur fjölgandi sem dveljast svo lengi á stofnunum að greiðslur lífeyris falli niður, ýmist tímabundið eða til frambúðar. Á árinu 1999 féllu greiðslur niður til 100 einstaklinga í mismunandi langan tíma, en á árinu 2000 eru þetta í kringum 128 einstaklingar. Helstu ástæður þess að fjöldinn fer vaxandi eru að líkindum fjölgun öryrkja, veruleg fjölgun þeirra úrræða sem fyrir hendi eru og til viðbótar bætt meðferð sem verður til þess að fleiri eiga sem betur fer afturkvæmt heim til sín.

Stór hluti þeirra einstaklinga fer til frambúðarvistar á stofnunum, en sem betur fer er líka hluti þeirra sem fær þjónustu og getur aftur farið heim til sín. Það er í þeim tilvikum sem tryggingaráð mildar áhrif þessarar reglu, þannig að lífeyrisbætur eru áfram greiddar tvisvar sinnum þrjá mánuði, eða sex mánuði samtals. Mér heyrðist hv. þm. segja áðan að fjórir mánuðir væru hámark, en það eru sex mánuðir samtals.

Þegar hv. þm. spyr hvort til standi að breyta þessari tilhögun verður að líta til þess að ef ríkið greiðir kostnað við rekstur stofnunarinnar, hlýtur á einhverjum tíma að verða eðlilegt að niður falli lífeyrisgreiðslur til einstaklings sem fær þar alla þjónustu. Með þeim reglum sem nú gilda getur einstaklingurinn notið fullra lífeyrisbóta, þar á meðal heimilisuppbótar, í allt að tíu mánuði, á tveggja og hálfs árs tímabili, þó að hann sé til meðferðar á sjúkrastofnun.

Flestir hljóta að vera sammála um að einstaklingur sem fær fulla þjónustu á stofnun, eigi ekki að fá líka fullar lífeyrisbætur í langan tíma. Slíkt væri mismunun gagnvart þeim lífeyrisþegum sem sjálfir halda heimili og sjá fyrir þörfum sínum og einnig mismunun gagnvart þeim sem dvelja til langframa á stofnunum og fá einungis vasapeninga.

Auðvitað verður að gæta ákveðins samræmis, en í flestum tilvikum nægir þessi tími til að einstaklingurinn geti ráðstafað málum sínum.

Virðulegi forseti. Því miður koma upp dæmi þess að einstaklingur getur ekki staðið undir fjárskuldbindingum þegar lífeyrisbætur falla niður, en vill halda í heimili sitt í von um að komast heim aftur af sjúkrastofnun. Við þekkjum dæmi um vandamál sem hafa komið upp. Flest þessara mála leysast með reglum tryggingaráðs. En ég hef óskað eftir því við formann tryggingaráðs að ráðið kanni hvort ekki séu efni til að auka enn sveigjanleikann í reglum ráðsins, t.d. þannig að umþóttunartími einstaklingsins sem stefnir að því að fara aftur heim til sín, verði lengdur úr sex mánuðum í níu mánuði. Þetta veit ég að tryggingaráð mun skoða vandlega, enda er fyrir hendi innan Tryggingastofnunar mikil þekking á mismunandi aðstæðum og vandamálum þeirra einstaklinga sem til hennar leita.