Málefni heyrnarskertra

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:07:30 (5081)

2001-02-28 15:07:30# 126. lþ. 79.5 fundur 364. mál: #A málefni heyrnarskertra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það eru fleiri með fyrirspurnir varðandi Heyrnar- og talmeinastöðina og þá sérstaklega varðandi þjónustu úti á landi og vil ég svara því á eftir. Hvað varðar það sem hv. þm. Ásta Möller kom inn á hér áðan, þá hafa orðið algjörar tæknibreytingar og -byltingar í heyrnartækjum og það hefur náttúrlega aukið kostnaðinn mjög hratt. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. kom áðan inn á, að það er halli til langs tíma á stofnuninni, sem er fyrst og fremst vegna þessarar tæknibyltingar því að stofnunin keypti ógrynnin öll af tækjum sem eru úrelt í dag og við stöndum frammi fyrir að úrelda. Það er sem sagt hlutverk formanns stjórnarinnar að ganga frá þessum málum og hann er að því fyrir okkar hönd.

Hvað varðar það hvort einkaaðilar komi inn í þetta að einhverju leyti með sölu á tækjum, þá hefur einn aðili sýnt því nokkurn áhuga að selja þessi tæki. Það er engan veginn útilokað að hann hefji þessa þjónustu, en hún verður aldrei til þess að Heyrnar- og talmeinastöðin haldi ekki áfram að vinna þá vinnu sem hún er að vinna í dag, heldur erum við að tala um miklu einfaldari þjónustuþætti sem sá einstaklingur mundi sinna. Þetta er alveg á byrjunarstigi. Við höfum verið að ræða við þennan aðila en við munum auðvitað gera mjög strangar kröfur og það verður mikið eftirlit með slíkri starfsemi.