Biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:09:34 (5082)

2001-02-28 15:09:34# 126. lþ. 79.6 fundur 388. mál: #A biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn á þskj. 638 til heilbrrh. um biðlista hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og meðfyrirspyrjandi minn á því þskj. er Kristján L. Möller. Það hefur þegar komið fram hér í dag, herra forseti, það álit hæstv. heilbrrh. að Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sé burðarás í þjónustu við heyrnarskerta hér á landi. Það er þeim mun alvarlegra að mikið er kvartað undan þjónustu stofnunarinnar. Kvartað er undan biðtíma og þess vegna hef ég spurt hæstv. heilbrrh. til að fá af því nokkra mynd: Hve langur biðtími er að jafnaði eftir þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og hve margir voru á biðlista um síðustu áramót?

Eins og ég sagði er þessi fyrirspurn sett fram að því gefna tilefni að þeir eru ótrúlega margir sem kvarta undan þeirri þjónustu sem þeir þurfa að sækja til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Fyrir utan biðtímann, að biðími eftir skoðun sé óhæfilega langur eða allt að heilt ár tekur við nýr biðtími eftir að skoðun hefur fengist, biðtími eftir viðeigandi hjálpartækjum. Auðvitað sjá allir að ef þetta er staðreynd mála hlýtur að verða að bæta hér úr. Ég hef þegar orðið þess áskynja að komin er hreyfing á þau mál, verið er að endurskoða lögin eins og hér hefur komið fram og þannig verið að skoða það umhverfi sem þessi þjónusta á að vera í.

En það er kannski ekki nóg þegar við annars konar vanda er einnig að etja og ég spyr jafnframt hæstv. heilbrrh.: Hvaða áform eru uppi um betri þjónustu stöðvarinnar, þar með talið styttri biðtíma og þjónustu við landsbyggðina með heimsóknum?

Hér hefur komið fram og ég vil ítreka það að mörg ár eru síðan slíkar heimsóknir lögðust af og þær kvartanir sem ég heyri mestar vegna þjónustu stöðvarinnar eru frá fólki sem er búsett úti á landi. Það er auðvitað afskaplega umhent að þurfa að sækja þessa þjónustu til Reykjavíkur, eiga ekki kost á henni annars staðar, þurfa að bíða svona lengi, vera í óvissu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að heyrnarskerðing veldur einangrun og getur þar með leitt til enn alvarlegri stöðu þess einstaklings sem við hana býr en ella þyrfti að vera.

Ég vænti þess að hæstv. heilbrrh. hafi svör við þessum spurningum mínum og að við fáum hér bæði upplýsingar um biðlistana, hvernig á að kljást við þá og einnig um fyrirhugaða bætta þjónustu við landsbyggðina, því það hlýtur að vera eitt af því sem verið er að skoða.