Biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:12:49 (5083)

2001-02-28 15:12:49# 126. lþ. 79.6 fundur 388. mál: #A biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Biðlistar á þeirri stofnun sem hv. 4. þm. Norðurl. e. spyr um eru af tvennum toga. Annars vegar bið eftir þjónustu og hins vegar úthlutun tækja og verður fjallað um hvorn vandann fyrir sig.

Biðtími eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun er að öllu jöfnu þrír mánuðir. Um síðustu áramót voru um 650 einstaklingar á bið eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun. Af þeim hópi, eða um 86%, er fólk 67 ára og eldra. Til að stytta biðlistann eftir almennri þjónustu þarf að auka læknisþjónustu stofnunarinnar en þar starfar nú aðeins einn læknir eins og kom áðan fram. Verið er að undirbúa árangursstjórnunarsamning við stofnunina og stefnt að undirritun slíks samnings nú strax í mars.

Tengt þeirri vinnu er að kanna hvort gera megi þjónustusamning um læknisfræðilega þjónustu við háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Hugmyndin er sú að fleiri læknar með sérmenntun á sviði heyrnarfræði komi með þeim hætti til starfa við Heyrnar- og talmeinastöðina en mjög fáir hafa sérmenntað sig á þessu sviði, eins og kom reyndar fram hjá mér í ræðu áðan.

Jafnframt er skoðað hvort nýta mætti betur ýmsar mælingar sem sérfræðilæknar í háls-, nef- og eyrnalækningum gera á stofum sínum svo ekki þurfi að endurtaka prófanir meira en brýn nauðsyn krefur.

Bið eftir afhendingu heyrnartækja er mun lengri og getur verið ár í einstaka tilvikum. Þannig biðu þann 15. janúar 1.211 einstaklingar eftir afhendingu tækja. Eftirspurn eftir heyrnartækjum hefur aukist mjög mikið vegna tæknilegra framfara á þessu sviði og auðvitað vegna hækkaðs meðalaldurs þjóðarinnar.

Þetta er svolítil endurtekning en ég ætla samt að minna á að heyrnartæki hafa hækkað mjög í verði að undanförnu enda eru það miklu betri tæki en boðið var upp á bara fyrir þremur árum. Framboð á ýmiss konar tækjabúnaði til hjálpar heyrnarskertun og heyrnarlausum hefur aukist mikið og eru möguleikar þessa hóps nú meiri en áður til margvíslegra tjáskipta. Við þessu hefur verið brugðist, m.a. með sérstakri fjárveitingu til úthlutunar textasíma fyrir 108 heyrnarskerta einstaklinga, sem hefur komið í góðar þarfir. En nú bíða 27 einstaklingar eftir 57 hjálpartækjum öðrum en heyrnartækjum. Þá hefur verið lögð áhersla á heyrnarlaus börn, m.a. með nýtingu tölvutækni til samskipta heyrnarlausra við umheiminn.

Virðulegi forseti. Varðandi síðari fyrirspurn hv. þm. skal upplýst að á undanförnum árum hafa legið niðri að mestu ferðir starfsmanna Heyrnar- og talmeinarstöðvarinnar út á land. Þetta er bæði vegna skorts á fjármagni og skorts á starfsfólki. Í undirbúningi er að taka slíkar ferðir aftur upp að nýju enda eru til fullbúnir heyrnarmælingarklefar má segja á heilsugæslustöðvum um allt land. Einnig verður skoðað hvort stofnunin geti komið upp þjónustueiningum á landsbyggðinni og sinnt þar með skjólstæðingum sínum betur. Nú er einn starfsmaður á Akureyri við ýmis störf þessu tengd og sinnir ýmsum verkefnum. Þar starfar einnig einn sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum, þjónustueining á Akureyri gæti sinnt mögulegum skjólstæðingum sem ella þurfa að sækja þessa þjónustu suður og verður kapp lagt á að tryggja þeirri hugmynd brautargengi.

Mjög brýnt er að stytta biðlistana og í ráðuneytinu er unnið að tillögum þar að lútandi eins og fram hefur komið.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér hafi verið rætt mjög þarft mál og mikilvægt að ræða það hér. Enn þá mikilvægara að hraða framkvæmdum hvað þetta varðar og mjög mikilvægt að þessi þjónusta verði um allt land en til þess þurfum við fleira fagfólk. Eins og ég sagði áðan þurfum við líka meira fjármagn og horfi ég nú djúpt í augu formanns fjárln.