Biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:20:21 (5086)

2001-02-28 15:20:21# 126. lþ. 79.6 fundur 388. mál: #A biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mikilvægu og góðu máli. Ég ætla aðeins að gera að umtalsefni seinni liðinn úr seinni spurningunni, þ.e. þjónustuna við íbúa landsbyggðarinnar með heimsóknum sem kom fram frá hæstv. ráðherra að hafa legið niðri um nokkurra ára skeið vegna fjárskorts og skorts á starfsfólki. Hér hefur einnig komið fram að fjárhagsvandi stofnunarinnar sé mikill frá umliðnum árum, eða rúmar 40 millj. Ég vildi aðeins nefna þetta í umræðunni vegna þess að rétt fyrir jól, þegar við vorum að afgreiða fjárlög fyrir þetta ár, fóru stjórnarsinnar mikinn og höfðu hátt um það að afgangur á fjárlögum íslenska ríkisins í ár er 30 milljarðar kr. Hér erum við að tala um réttlætismál. Hér erum við að tala um það sem allir vilja fá yfirleitt, að heyra, en skortur á fjármagni gerir það að verkum að ekki er hægt að inna þetta af hendi við þegna þessa lands. Ég hvet hæstv. heilbrrh. til að duga vel í því að koma þessari þjónustu gagnvart landsbyggðinni á aftur.