Sálfræði- og geðlæknisþjónusta við fólk í sjálfsvígshugleiðingum

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:25:29 (5089)

2001-02-28 15:25:29# 126. lþ. 79.7 fundur 434. mál: #A sálfræði- og geðlæknisþjónusta við fólk í sjálfsvígshugleiðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Nýverið svaraði hæstv. ráðherra fyrirspurn minni um fjölda sjálfsvígstilrauna hér á landi miðað við komur á bráðamóttökur sjúkrahúsanna. Í svarinu kom fram að það eru að meðaltali fleiri en einn á dag sem reyna sjálfsvíg. Það segir reyndar ekkert um hversu stórt vandamálið er úti í samfélaginu. Samkvæmt áliti sérfróðra lækna er leitar aðeins lítill hluti þeirra sem skaðar sig til sjúkrahúsanna. Tölurnar sem ráðherra veitti í svari sínu gefa til kynna að endurtekningar eru nokkuð algengar hjá þeim hópi sem leitar sér aðstoðar á slysadeild vegna þessa. Einnig kemur fram að allnokkur hópur leitar til sjúkrahúsanna vegna sjálfsvígsáforma án þess að hafa gert tilraun til að skaða sig. Tölur frá lögreglunni sýna einnig að skráðum sjálfsvígstilraunum fjölgar á undanförnum þremur árum. Þetta er verulegt áhyggjuefni og því mjög mikilvægt að heilbrigðiskerfið veiti þessum sjúklingum sálfræði- eða geðlæknisþjónustu og þeim verði fylgt eftir þegar þeir fara af sjúkrahúsinu út í veruleikann aftur. Það eru uggvænlegar staðreyndir að fleiri falla fyrir eigin hendir hér á landi en látast í umferðarslysum.

Í ljósi þessara upplýsinga spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða sálfræði- eða geðlæknisþjónustu fær þetta fólk og er því fylgt eftir með frekari þjónustu? Er eftirfylgnin alltaf veitt og er þessi þjónusta alltaf veitt þegar þetta fólk kemur? Hver er þessi þjónusta?

Eins og ég nefndi áðan eru margir sem koma ekki á sjúkrahúsin eftir að hafa reynt þetta eins og bent er á bæði í svari hæstv. ráðherra og í tölum frá lögreglunni.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver áform séu uppi um að veita þessum hópi, þ.e. þeim sem aldrei koma á sjúkrahúsin, einhverja hjálp eða þjónustu. Væri einhvern veginn hægt að nálgast þá með aðstoð?