Sálfræði- og geðlæknisþjónusta við fólk í sjálfsvígshugleiðingum

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:27:48 (5090)

2001-02-28 15:27:48# 126. lþ. 79.7 fundur 434. mál: #A sálfræði- og geðlæknisþjónusta við fólk í sjálfsvígshugleiðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Í svari mínu geri ég ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi sé ekki eingöngu að leita eftir upplýsingum um viðbrögð á bráðamóttökunni, en hún er á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi við Hringbraut. Ég held að hv. þm. sé að fá almennar upplýsingar.

Ég mun þó fyrst gera grein fyrir hvernig þessu er háttað á bráðamóttöku Landspítalans.

Einstaklingar sem gera tilraun til sjálfsvígs eða eru í sjálfsvígshugleiðingum og leita til bráðamóttöku fá að sjálfsögðu mismunandi þjónustu eftir veikindum. Sumir eru lagðir inn til skoðunar, oftast á bráðamóttökuna en stundum t.d. á gjörgæslu ef það er talið nauðsynlegt. Fyrstu viðbrögð beinast að sjálfsögðu að því að meta ástandið og vinna bug á hættulegustu afleiðingunum. Þegar þetta er yfirstaðið er ætíð leitað ráðgjafar, geðlækna, og fá allir þeir sem leita til bráðamóttöku við þær aðstæður, sem hér er fjallað um, slíka þjónustu.

Margir sem leita til bráðamóttöku vegna sjálfsvígshættu eða tilrauna, eru undir læknishendi vegna ýmissa geðrænna sjúkdóma og er þá haft samband við viðkomandi lækni eða aðra heilbrigðisstarfsmenn, eftir því sem við á. Þegar ástand einstaklingsins er ekki talið mjög alvarlegt er honum beint til göngudeildar geðdeildanna og virðist það fyrirkomulag ganga vel. Áframhaldandi meðferð ræðst auðvitað af sjúkdómsástandi einstaklingsins.

Heilbrigðisþjónustan býður upp á úrræði fyrir þá sem eiga við vanda af þessum toga. Meðferð getur verið fólgin í innlögn á geðdeild, dagdeildarþjónustu, viðtölum, lyfjameðferð og öðrum viðeigandi úrræðum. Í einstaka tilfellum hefur þurft að grípa til þess að svipta sjúkling sjálfræði. Einstaklingar sem gert hafa tilraun til sjálfsvígs eða eru í slíkum hugleiðinum leita flestir til slysadeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Fossvogi þar sem meðferð er svipuð og ég hef lýst hér að framan.

Þá leita margir beint til geðdeilda, geðlækna eða sálfræðinga, til heilsugæslunnar eða þá á göngudeildir, þar sem margar heilbrigðisstéttir starfa saman. Á landsbyggðinni leita þessir einstaklingar til heilsugæslunnar og annarra heilbrigðisstofnana og mjög oft til presta.

Virðulegi forseti. Ég hef leitast við að svara fyrirspurn þingmannsins með því að veita almennar upplýsingar um málið en ég vil taka fram að það er auðvitað faglegt mat hverju sinni hvaða þjónustu einstaklingurinn er talinn þurfa.