Sálfræði- og geðlæknisþjónusta við fólk í sjálfsvígshugleiðingum

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:32:02 (5092)

2001-02-28 15:32:02# 126. lþ. 79.7 fundur 434. mál: #A sálfræði- og geðlæknisþjónusta við fólk í sjálfsvígshugleiðingum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar sem voru almenn og ágæt svo langt sem þau náðu. Ég veit að sjúkrahúsin reyna að taka sem best á móti þessu fólki og veita því sem besta þjónustu. Þó veit ég til þess að fólk hefur farið heim eftir að hafa komið í þessu ástandi án þess að hafa hitt sérfræðing en það vona ég að sé undantekning frekar en regla og geri ráð fyrir því. Aftur á móti vil ég leggja áherslu á að þegar fólki er bent á göngudeild til endurkomu þarf að fylgja því eftir. Það þarf að hringja og athuga hvort fólk komi og sérstaklega ef fólk sýnir sig ekki aftur þegar því hefur verið vísað á göngudeild eftir að hafa komið inn eftir sjálfsvígstilraun eða í þeim hugleiðingum. Ég tel að það þurfi að gera ýmislegt til viðbótar við þá þjónustu sem þegar er veitt og er að mörgu leyti góð.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Ástu Möller um símaneyðarlínu ætlaði ég að koma inn á það í fyrirspurn minni, sem er síðar á dagskránni, um forvarnastarf gegn sjálfsvígum, og vil taka undir það að ákaflega mikilvægt er að komið verði á neyðarlínu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé á döfinni. Reyndar mun ég koma að því ef ég hef tíma til að koma með þá fyrirspurn á eftir sem mér sýnist reyndar að muni varla ganga. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að frekari eftirfylgni verði við þá sjúklinga sem bent er á að koma á göngudeild eftir tilraun til sjálfsvígs. Það er gert á öðrum stöðum og við getum leitað í smiðju til ýmissa annarra þjóða sem eru langt komnar í forvörnum og stuðningi við þá sem eiga við þunglyndi að stríða og eru í þessum hugleiðingum. (Forseti hringir.)

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, herra forseti, hvort hún telji ekki ástæðu til að koma á neyðarlínu og frekari eftirfylgni við þessa einstaklinga.