Lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:39:08 (5095)

2001-02-28 15:39:08# 126. lþ. 79.8 fundur 436. mál: #A lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. spyr hvort ráðherra hyggist bregðast við þeirri kjaraskerðingu sem öryrki verður fyrir þegar hann nær 67 ára aldri.

Hv. þm. er tamt að tala um skerðingar. Inni í þessu efni eru tvö svið, þ.e. að aðstæður öryrkja breytast þegar hann verður 67 ára. Annars vegar var tekjutrygging öryrkja hækkuð sérstaklega um 887 kr. í tíð Sighvats Björgvinssonar sem heilbrrh. Ég býst við að hv. fyrrv. þm. og samflokksmanni fyrirspyrjanda hafi gengið gott eitt til með að hækka bætur sérstaklega til öryrkja sem heitir nú skerðing.

Hins vegar komu fram þau áhrif að breytingu almannatrygginga frá því í lok síðasta mánaðar, að hin sérstaka lágmarksfjárhæð sem öryrkja er tryggð, þ.e. 43.424 kr. á mánuði, án tillits til tekna maka, gildir ekki um ellilífeyrisþega. Dómur Hæstaréttar leiddi til þess að bæta kjör ákveðins hóps öryrkja, en eins og hv. þm. er kunnugt, gildir hann ekki um alla lífeyrisþega.

Í grundvallaratriðum má sjá tvær leiðir til að tryggja hag þeirra sem verst eru settir að þessu leyti: Annars vegar að hækka einfaldlega tekjutryggingu ellilífeyrisþega þannig að enginn munur verði. Ég tel hins vegar að færa megi fyrir því rök eins og Öryrkjabandalagið hefur gert að öryrki, oft á besta aldri, með fjölskyldu og skuldbindingar þurfi almennt fremur á hærri greiðslum að halda en flestir ellilífeyrisþegar. Og ég endurtek --- flestir. Hin leiðin sem má velta fyrir sér er hvort eðlilegt sé að öryrki verði ellilífeyrisþegi við 67 ára aldur eða hvort hann eigi áfram að falla undir örorkureglurnar. Það er auðvitað flókið mál og ekki víst að mikið réttlæti eða jafnræði væri falið í því að mikil mismunun væri á kjörum öryrkja og ellilífeyrisþega sem væru á sama aldri og e.t.v. með svipaðar aðstæður en úr þessu erum við að vinna.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin ákvað að kalla eftir tillögum frá nefnd um endurskoðun lífeyristrygginga og munu þær liggja fyrir eigi síðar en um miðjan apríl. Ég hef oft lýst því yfir að meginverkefnið fram undan sé að bæta sérstaklega hag þeirra sem eru verst staddir. Það er aðalverkefni nefndarinnar sem hefur fundað með samtökum öryrkja, aldraðra og aðila vinnumarkaðarins.

Virðulegi forseti. Fyrst koma tillögurnar og síðan ákvarðanir og aðgerðir og það á að gerast eigi síðar en um miðjan apríl.