PCB-mengun í Reykjavík

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:09:45 (5102)

2001-02-28 18:09:45# 126. lþ. 79.17 fundur 469. mál: #A PCB-mengun í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er ljóst að umhvrn. hefur áhuga á þessu máli og vill vinna að því að uppræta þá PCB-mengun sem hér hefur orðið. Vitað er að afleiðingar af eitrun af þessu tagi, af völdum þrávirkra lífrænna efna eru mjög alvarlegar. Uppsöfnun DDT og PCB í mönnum og dýrum getur valdið krabbameini, ófrjósemi, óeðlilegum kynþroska, ofnæmi, alvarlegri bilun á ofnæmiskerfi, svo eitthvað sé nefnt, og jafnvel greindarskorti í börnum eins og fram hefur komið í erlendum rannsóknum. Jafnvel telja menn eftir rannsóknir í Bandaríkjunum að hjá um 5% þeirra barna sem líða af greindarskorti geti það stafað af PCB-eitrun. Þannig að málið er mikilvægt. PCB brotnar ekki niður og hverfur ekki af sjálfu sér úr náttúrunni. Þótt erfitt sé að uppræta það eru til aðferðir eins og það að steypa það inni eins og menn hafa talað um að væri hægt að gera í Sundahöfn, eða þá að koma því fyrir á öruggum urðunarstað, sem er reyndar umdeilt líka, en slíkur staður er ekki enn til hér á landi og menn bíða eftir því að úr því verði leyst. Mér skilst að PCB hafi mælst, að vísu í litlum mæli, t.d. við holræsi og jafnvel sé PCB í einhverjum sýnum úr Tjörninni í Reykjavík. Ég held að mjög miklu máli skipti að tekið sé á þessu máli af festu, það hefur verið allt of lengi í gangi og ekki verið leyst og löngu tímabært að slík mengun verði upprætt.