PCB-mengun í Reykjavík

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:12:04 (5103)

2001-02-28 18:12:04# 126. lþ. 79.17 fundur 469. mál: #A PCB-mengun í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni og Katrínu Fjeldsted. Það er mikilvægt að við pössum vel upp á þessi mál. Og það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, sem er einnig læknir og þekkir örugglega þessi mál frá því sjónarhorni, að þessi þrávirku lífrænu efni sem PCB er, díoxín, DDT og ýmis önnur efni, eru skaðleg heilsu manna og dýra og þau leysast upp í fituvef og þau safnast fyrir á norðlægum slóðum, sérstaklega í fituvef manna og dýra. Ég þekki til rannsókna sem einmitt er verið að gera erlendis og því er spáð víða að menn munu lækka þá þröskulda sem nú eru í matvælum gagnvart þessum efnum til að verja heilsu manna. Þetta er því mjög mikilvægt mál.

Varðandi norðurskautssvæðið þar sem við erum núna að fara í þessi verkefni ásamt öðrum þjóðum, þá er mjög mikilvægt að við tökum þátt í því. Við Íslendingar höfum verið leiðandi varðandi mengun hafsins um árabil. Einnig er ánægjulegt að búið er að samþykkja í ríkisstjórninni að Ísland taki við formennsku í Norðurskautsráðinu 2002--2004. Finnar eru núna með formennsku, og við höfum ákveðið að taka við henni og það mun setja enn þá meira kastljós á þessi mál hér á Íslandi.

Ég vil líka koma því hérna á framfæri vegna orða hv. fyrisrpyrjanda að ég hef skipað nefnd sem á að koma með tillögur um förgunarstað, sé það hagkvæmt, gagnvart spilliefnum almennt, þannig að þau mál eru í vinnslu.