Fjöldi íslenskra kaupskipa

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:27:16 (5108)

2001-02-28 18:27:16# 126. lþ. 79.14 fundur 451. mál: #A fjöldi íslenskra kaupskipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 719 hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um fjölda íslenskra kaupskipa. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvað eru mörg kaupskip skráð á Íslandi og sigla undir íslenskum fána?

2. Hefur kaupskipum fjölgað á íslenskri skipaskrá eftir að stimpilgjöld af skráningu skipa voru afnumin?

3. Er ójafnvægi í rekstrarlegu umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða samanborið við önnur Norðurlönd? Ef svo er, hverjir eru þá helstu þættir mismunarins?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er það að 1997 var nokkuð um það rætt meðal manna og höfðu leiðandi menn íslenskrar kaupskipaútgerðar það á orði að ójafnvægi væri mjög mikið, annars vegar í kaupskipaútgerð og hins vegar hjá þeim sem ættu eða rækju flugvélar. Bent var á að flugvélar sem kæmu erlendis frá þyrftu ekki að greiða nein gjöld þegar þær væru skráðar íslenskar, en skip undir erlendum fána sem stæði til að skrá á Íslandi þyrftu að borga tugi milljóna kr. Þessum lögum var breytt þannig að nú borga kaupskip ekki stimpilgjöld eins og þau gerðu áður. Þetta var ein af meginforsendum þess --- og hafði framkvæmdastjóri þáverandi Sambands íslenskra kaupskipaútgerða orð á því að ástæða þess að svo fá skip væru skráð undir íslenskum fána væri fyrst og fremst óeðlilega há skráningargjöld hér á landi. Það er alveg ljóst að þá var nauðsynlegt að grípa í taumana og lækka stimpilgjöldin hér á landi svo að um ókomin ár, eins og sagt var þá, megi kaupskip undir íslenskum fána sjást sem víðast. Það er alveg ljóst að öflugur íslenskur kaupskipafloti er þáttur í sjálfstæði þjóðarinnar og því er rétt að stuðla að því að sem flest kaupskip í eigu íslenskra útgerða sigli undir íslenskum fána.

Aðeins til upplýsingar. Árið 1997 voru 26 kaupskip í rekstri íslenskra útgerða, 18 skip voru í eigu íslenskra kaupskipaútgerða, átta skip í leigu hjá erlendum útgerðum og þá, þ.e. árið 1997, eru aðeins fjögur skip undir íslenskum fána, tvö kaupskip og tvö olíuflutningaskip.

Þess vegna, með leyfi herra forseta, er fyrirspurnin lögð fram, í því breytta umhverfi sem nú er, stimpilgjöldin afnumin:

Hve mörg skip sigla nú undir íslenskum fána?