Fjöldi íslenskra kaupskipa

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:30:05 (5109)

2001-02-28 18:30:05# 126. lþ. 79.14 fundur 451. mál: #A fjöldi íslenskra kaupskipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvað eru mörg kaupskip skráð á Íslandi og sigla undir íslenskum fána?``

Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun Íslands voru 58 kaupskip skráð á skipaskrá þann 1. janúar sl., en með kaupskipum er, samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa, nr. 59/1995, átt við hvert það skip, skrásett sem vöruflutninga- eða farþegaskip, er siglir með varning og/eða farþega til og frá landinu milli hafna innan lands og utan. Til þessa flokks teljast m.a. olíu- og efnaflutningaskip. Af þessum 58 kaupskipum voru á skrá 1. janúar sl. tvö vöruflutningaskip, eitt efnaflutningaskip, 45 farþegaskip, fjögur olíuskip og sex dýpkunar- og sanddæluskip.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hefur kaupskipum fjölgað á íslenskri skipaskrá eftir að stimpilgjöld af skráningu skipa voru afnumin?``

Með lögum nr. 157/1998, um breytingu á lögum um stimpilgjöld, nr. 36/1978, sem tóku gildi 1. janúar 1999, voru rýmkuð ákvæði um stipmilgjöld eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Kveðið var á um að afsalsbréf og skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip sem einkum eru ætluð til farmflutninga og rekin af skipafélögum sem stunda siglingar innan lands, að og frá landinu eða milli hafna erlendis, skuli vera stimpilfrjáls.

Frá 1. janúar 1999 til 1. janúar 2001 hefur kaupskipum á skipaskrá fjölgað um 18. Þessi fjölgun kaupskipa á íslenskri skipaskrá skýrist fyrst og fremst af því að fjöldi farþegaskipa hefur aukist og má rekja það til aukinnar útgerðar við hvalaskoðunarferðir með ferðamenn.

Ef miðað er við hvern einstakan flokk skipa kemur í ljós að vöruflutningaskipum á skipaskrá hefur fækkað á tímabilinu um eitt, þ.e. í tvö úr þremur.

Fjöldi efnaflutningaskipa á skipaskrá er sá sami, þ.e. eitt skip. Farþegaskipum á skipaskrá hefur fjölgað um 20, þ.e. í 45.

Olíuskipum hefur fækkað um eitt, þau eru nú fjögur, en voru fimm. Og fjöldi dýpkunar- og sanddæluskipa á skipaskrá er sá sami, þ.e. sex.

Með hliðsjón af þessum tölum verður að svara spurningu fyrirspyrjanda neitandi þar sem vöruflutningaskipum hefur fækkað úr þremur í tvö, síðan ákvæðum laga um stimpilgjald var breytt, m.a. í þeim tilgangi að ýta undir skráningu vöruflutningaskipa á íslenska skipaskrá.

Í þriðja lagi var spurt: ,,Er ójafnvægi í rekstrarlegu umhverfi íslenskra kaupskipaútgerða samanborið við önnur Norðurlönd? Ef svo er, hverjir eru þá helstu þættir mismunarins?``

Árið 1998 skilaði áliti nefnd sem þáv. samgrh. skipaði til þess að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um málefni kaupskipa, þ.e. fyrst og fremst vöruflutningaskipa sem sigla milli Íslands og annarra landa, m.a. með tilliti til þróunar íslenskra kaupskipaútgerða á undanförnum árum, breyttra samkeppnisskilyrða og aðgerða annarra ríkja til eflingar kaupskipaútgerð. Nefnd þessi kannaði sérstaklega samkeppnisskilyrði íslenskra kaupskipaútgerða og horfði m.a. til Norðurlandanna í því sambandi.

Um miðjan 9. áratuginn sáu Danir og Norðmenn að skip þeirra voru að færast hratt í skipaskrár annarra landa. Til varnar þessari þróun stofnuðu þeir alþjóðlegar skipaskrár, NIS í Noregi og DIS í Danmörku. Gripið var til hliðarráðstafana svo að þær yrðu aðlaðandi valkostur í samanburði við aðrar alþjóðlegar skipaskrár. Báðar þjóðirnar leyfðu útgerðum að ráða áhöfn sem tækju laun eftir kjarasamningum við verkalýðsfélög utan EES-svæðisins. Danir felldu auk þess niður tekjuskatt sjómanna á skipum er skráð voru í DIS og greiða þeir þess í stað mánaðarlega tryggingargjald til danska ríkisins. Þessar ráðstafanir dugðu lengst af og sáu útgerðir landanna hag í því að skrá skip í norsku eða dönsku alþjóðlegu skipaskrárnar.

Um miðjan síðasta áratug þótti Norðmönnum að farið væri að halla undan alþjóðlegu skipaskránni og að skipin væru aftur á leiðinni út úr henni. Síðla árs 1996 samþykktu Norðmenn nýjar ráðstafanir til þess að styrkja NIS og leyfa nú útgerðum að gangast undir nýtt skattkerfi, þar sem þeir greiða svokallaðan tonnskatt í stað tekjuskatts. Í Noregi var ákveðið að veita 339 millj. kr. árið 1997 til þess að endurgreiða útgerðum norskra skipa tekjuskatt og tryggingargjöld.

Að öðru leyti eru margvísleg atriði sem ég hef ekki tíma til þess að fara ofan í hér, en það er alveg augljós mismunur hér á milli aðstæðna, annars vegar hjá dönskum, norskum og sænskum og finnskum útgerðarfyrirtækjum, miðað við það sem er hér hjá okkur.

Að öðru leyti hef ég ekki tíma til þess að fara nánar út í þennan þátt í svari mínu.