Fjöldi íslenskra kaupskipa

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:37:27 (5111)

2001-02-28 18:37:27# 126. lþ. 79.14 fundur 451. mál: #A fjöldi íslenskra kaupskipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í fyrra svari mínu eru í Noregi margs konar ívilnanir, en í Danmörku eru farmenn á dönskum kaupskipum sem skráð eru á dönsku alþjóðlegu skipaskránni DIS, undanþegnir tekjuskatti svo nokkuð sé nefnt hvað varðar aðstöðu sjómanna þeirra.

Samgrn. hefur í samráði við fjmrn. og Siglingastofnun Íslands verið að huga að leiðum sem leitt gætu til þess að íslensk farskip yrðu í auknum mæli skráð á íslenska skipaskrá, til viðbótar við það sem áður hefur verið gert. Í því sambandi má nefna að með lögum nr. 157/1998, um breytingu á lögum um stimpilgjald, sem tóku gildi 1. janúar 1998, var kveðið á um að afsalsbréf og skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip sem einkum eru ætluð til farmflutninga og rekin af skipafélögum sem stunda siglingar innan lands að og frá landinu eða milli hafna erlendis, skuli vera stimpilfrjáls.

Á sl. hausti lagði ég fram frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa, sem heimila þurrleiguskráningu kaupskipa. Það frumvarp er nú orðið að lögum og tóku þau gildi 1. janúar sl. Ég geri mér vonir um að í framhaldi af þeim lögum muni fleiri farskip verða skráð á íslenska skipaskrá. Öll rök hníga að því að halda skráningu kaupskipa í landinu.

Ísland er eyríki og yfir 95% af vörum til og frá landinu eru flutt með skipum. Fjölmörg störf í landi krefjast góðrar skipstjórnarreynslu og leiðsaga skipa, skipaskoðun, skipamiðlun og fleira og fleira sem tengist þessu er mikilvægur þáttur í okkar atvinnulífi.

Ég hef falið fulltrúum frá samgrn., fjmrn. og Siglingastofnun að skoða til hvaða fleiri aðgerða væri hægt að grípa til þess að fleiri kaupskip verði skráð á íslenska skipaskrá, t.d. hvort rétt sé að setja á fót hér á landi alþjóðlega skipaskrá og að því er nú unnið.