Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 10:39:06 (5114)

2001-03-01 10:39:06# 126. lþ. 80.4 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., Frsm. minni hluta GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Hér er verið að ræða mál sem hefur verið kallað tegundartilfærslan innan stjórnkerfis fiskveiðanna og byggist á heimildum sem eru í 10. gr. laganna. Þetta ákvæði hefur verið talsvert umdeilt á undanförnum árum og ég hygg að deilur um það atriði sem málið hefur snúist um hafi frekar vaxið eða skerpst heldur en hitt. Þess vegna var það að ég lagði fram frv. á sínum tíma í hv. Alþingi um að afnema tegundartilfærsluna, en jafnframt yrði sett inn ákvæði um það að menn mættu veiða fram fyrir sig eða veiða innan ársins og það yrði svo tekið af úthlutun kvótanna árið á eftir hjá viðkomandi útgerð.

Ég lagði til á sínum tíma að þetta ákvæði væri 2%. Út af fyrir sig má kannski segja að það hafi verið nokkuð þröng tillaga og hefði verið eðlilegt að hafa hana kannski eitthvað hærri, enda bjóst ég við að í meðförum sjútvn., ef af yrði, þá yrði það tekið fyrir. Hins vegar var málið afgreitt með þeim hætti á sínum tíma að það var rætt í hv. Alþingi og vísað til sjútvn. sem vísaði málinu áfram til ríkisstjórnarinnar með sérstöku nefndaráliti. Þetta er nefndarálit frá 125. löggjafarþingi og það hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin [þ.e. sjútvn.] hefur fjallað um málið og fengið sendar umsagnir frá Verslunarráði Íslands`` o.s.frv. Síðan eru talin upp nokkur samtök sem ég ætla að sleppa að lesa upp.

Með frumvarpinu er stefnt að því`` --- þ.e. frv. sem þá var lagt fram af þeim sem hér stendur --- ,,að taka á því vandamáli sem fylgt hefur tegundatilfærslum undanfarin ár. Segir í greinargerð að útgerðir hafi í reynd búið sér til kvóta langt umfram leyfilegan úthlutaðan fiskikvóta af viðkomandi fisktegund með slíkum tilfærslum og hafi það t.d. leitt til þess að árum saman hafi verið meira veitt af karfa en úthlutað hefur verið af þeirri fisktegund.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og greinargerð með því og telur að tegundatilfærslur eins og þær hafa verið tíðkaðar gangi gegn markmiði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um vernd og uppbyggingu fiskstofna.

Nefndin leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og leggur áherslu á að það komi til sérstakrar athugunar við þá heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem nú stendur yfir.``

Undir þetta nefndarálit skrifuðu hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Árni R. Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Jóhann Ársælsson og Svanfríður Jónasdóttir.

Þannig var málið sem sagt afgreitt í hv. Alþingi og það frv. sem við ræðum hér nú er svo tilkomið vegna þess að þessi samþykkt var gerð hér í hv. þingi og það frv. sem við ræðum núna á þskj. 120, 120. mál, er um breytingu á 10. gr. og tekur þar verulegum breytingum frá þeirri stefnumótun sem lagt var upp með. Tel ég þá rétt áður en ég held lengra í máli mínu að gera grein fyrir því minnihlutaáliti sem ég samdi um þetta mál.

Það er álit minni hluta að þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpi sjávarútvegsráðherra, og meiri hluti nefndarinnar mælir með, nái ekki því markmiði að stöðva sjálftöku á kvótum sem mest eru nýttir af stærstu og öflugustu fiskiskipum flotans, frystitogurunum. Samkvæmt frumvarpinu verður áfram hægt að nýta sér tegundartilfærslu og ekki verður komið í veg fyrir að stórútgerðin safni til sín verðlitlum kvótategundum, t.d. sandkola og skrápflúru, geymi þær síðan hjá sér og breyti yfir í verðmeiri fisktegundir þegar það hentar vegna verðs og skorts á kvótum. Karfi og grálúða hafa verið þær fisktegundir sem mest hefur verið breytt í á undanförnum árum og hefur oft verið veitt 10--15% umfram leyfðan afla í þeim tegundum. Á síðasta fiskveiðiári, 1999--2000, var rúmlega 60% af sandkolakvótanum breytt í aðrar fisktegundir og tæpum 46% af skrápflúrukvótanum ásamt 16% af steinbítskvótanum. Alls voru 9.768 tonn notuð í breytingar sem gáfu 1.779 tonn af karfa, 1.505 tonn af grálúðu, 711 tonn af skarkola og 693 tonn af ýsu eftir tegundarbreytingar útgerðanna.

[10:45]

Nefndin tók á 125. löggjafarþingi heils hugar undir sjónarmið sem fram komu í frv. sem flutt var af undirrituðum og samþykkt var að vísa til ríkisstjórnarinnar með þeim orðum að ,,tegundartilfærslur eins og þær hafa verið túlkaðar gengju gegn markmiði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um vernd og uppbyggingu fiskstofna``.

Frv. sem undirritaður flutti á 125. löggjafarþingi fól í sér að tegundartilfærsla yrði afnumin. Í staðinn yrði leyft að veiða umfram úthlutun enda yrði þá fært til baka af næsta árs úthlutun í sömu fisktegund og veitt var umfram af fiskveiðiárinu á undan. Í frv. var gerð tillaga um 2%. Vel kann að vera að það hafi verið of þröng heimild og þau 5% sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 10. gr. laganna hefðu mátt standa, enda væri þá tegundartilfærslan felld niður með verðmætastuðlum einstakra fisktegunda sem í lögunum eru og meiri hlutinn vill enn þá hafa í lögunum.

Tillaga meiri hlutans er spor í þá átt sem lögð var til en nær ekki því markmiði að stöðva upptöku á kvótum annarra fisktegunda sem strandveiðiflotinn í aflamarkskerfinu gæti þá e.t.v. nýtt sér. Frv. stöðvar ekki heldur sjálftöku kvóta yfir í karfa og grálúðu sem fyrst og fremst færist yfir til frystiskipaflotans. Breytingin í frv. sjútvrh. nær því ekki þeim markmiðum sem að var stefnt en er í besta falli lítið skref á þeirri leið að afnema tegundartilfærslu.

Nú tel ég rétt að gera aðeins nánar grein fyrir því hvað þessi tegundartilfærsla hefur haft að segja á undanförnum árum og ætla ég að láta mér nægja að fara yfir tvö fiskveiðiár, þ.e. fiskveiðiárið 1999--2000 sem ég rakti að nokkru leyti áðan. Þá kemur í ljós að fisktegundir eins og sandkoli og skrápflúra hafa að meiri hluta til verið veiddar af strandveiðiflotanum ef það er hægt að kalla hann svo, þ.e. skipum sem stunda veiðar nær ströndinni og jafnvel inni á flóum og fjörðum eins og í Faxaflóa. Þessir kvótar sem settir voru á fyrir nokkrum árum --- þessar fisktegundir voru ekki inni í kvóta fyrr en árið 1997, fiskveiðiárið 1997--1998 þegar þær voru teknar inn í kvóta.

Síðan kemur í ljós að á þeim tveimur fiskveiðiárum, sem ég ætla að taka til viðmiðunar, hafa þessar fisktegundir, sandkoli og skrápflúra, verið notaðar að stórum hluta til í tegundartilfærsluna. Ég hef þegar minnst á árið 1999 þar sem rúmlega 60% af sandkolakvótanum voru notuð til að framleiða karfa og grálúðu að mestu leyti eða 4.232 tonn sem voru notuð í tegundartilfærslu af 7.000 tonna heildarkvóta viðkomandi tegunda. Síðan voru af skrápflúrunni notuð 2.280 tonn af 5.000 tonna heildarkvóta. Þarna erum við að tala um tæpan helming og vel rúmlegan helming af heildarkvóta tveggja fisktegunda sem eru eingöngu notaðar til að framleiða aðrar fisktegundir. Þetta er auðvitað allt löglegt. Þetta er eins og kerfið er byggt upp en ég tel eftir sem áður að þetta sé afar óeðlileg þróun.

Það kom greinilega fram í starfi okkar í sjútvn. Það komu menn á fund okkar og fóru nákvælega yfir þessa stöðu, m.a. menn sem voru að sérhæfa sig í vinnslu á fisktegundum eins og sandkola og skrápflúru. Þeir höfðu einfaldlega lent í því að þegar leið á fiskveiðiárið var ófáanlegur kvóti í þessum tegundum sem þeir voru að einbeita sér að vinnslu að vegna þess að menn voru þá búnir að tryggja sér hann annars staðar, festa hann hjá sér á stærri útgerðum sem höfðu rúma tegundartilfærslu vegna þess að þetta er prósentutengt af þeim ígildum sem menn hafa í tegundunum. Þar af leiðandi sátu menn uppi með að lenda í vandræðum með að hafa aflakvóta fyrir þessum tegundum til að halda áfram þeirri vinnslu sem þeir höfðu verið að byggja upp.

Náttúrlega er afar óeðlilegt að svo sé gert í einu fiskveiðistjórnarkerfi í viðbót við allt annað sem menn hafa verið að gagnrýna og á mjög mikinn rétt á sér í þeim málflutningi sem menn hafa verið að fjalla um varðandi fiskveiðistjórnarkerfið, að það skuli til viðbótar vera þannig að fisktegundir sem að meiri hluta til halda sig svo nærri landinu og jafnvel inni á algerri grunnslóð skuli vera notaðar, settar í kvóta fyrir þremur fiskveiðiárum og svo skuli helmingurinn af þeim notaður til að framleiða sérstaka kvóta sem eru veiddir af stærstu fiskiskipum landsins á dýpstu miðunum, annars vegar í karfa og hins vegar í grálúðu niður á jafnvel 700 faðma dýpi. Þetta var aldrei tilgangurinn með því að tína þessar fisktegundir inn í kvóta og sýnir það einfaldlega að sú regla að menn geti notað innfjarða- og strandveiðitegundir eins og flatfiskana og að helmingi til til þess að framleiða aðrar tegundir er algerlega óeðlilegt. Þess vegna hefði verið eðlilegt að mínu viti að afnema þetta að fullu og leyfa þá viðkomandi útgerðum sem hafa aflaheimildir að veiða fram fyrir sig enda gengi það þá til baka árið á eftir af þeim aflaheimildum sem skipið fengi úthlutað.

Það hefði náttúrlega þurft að skoða það að þegar fisktegundir veiðast ekki ár eftir ár og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar heldur áfram að vera helmingi meiri en veiði þá hljótum við venjulegir leikmenn að áætla að slík fisktegund hafi ekkert inn í kvóta að gera. Ef það er skoðun Hafrannsóknastofnunar að kvótarnir megi vera þetta rúmir og það er sem sagt lagt til áfram á milli ára, því að kvótarnir í þessari fisktegund hafa verið óbreyttir frá því að þessar fisktegundir voru teknar inn í kvóta á fiskveiðiárinu 1997--1998, þ.e. annars vegar 7 þús. tonn í sandkola og hins vegar 5 þús. tonn í skrápflúru, ef það er svo að fiskifræðingar meta að þetta sé sú veiði sem stofnarnir þola er náttúrlega algerlega óeðlilegt. Í fyrsta lagi að hafa þessar tegundir inni í kvóta því að þær þurfa þá ekkert að vera þar. Þá væri æskilegt að menn hefðu frelsi til að veiða þessar tegundir ef þetta er staðreyndin að svona mikinn afla megi veiða úr þessum tegundum og við getum alls ekki markað annað þegar tillögurnar eru eins þrjú ár í röð. Þetta getur varla verið nein tilviljun eða neitt sem menn hafa misstigið sig á að leggja til óbreytta kvótastöðu í þessum fisktegundum þrjú ár í röð, þá ætti það að koma verulega til skoðunar að slíkar fisktegundir ættu alls ekki heima inni í kvótanum.

Þetta sjónarmið á auðvitað við um fleiri fisktegundir sem hafa reyndar á undanförnum árum verið notaðar sífellt í tegundartilfærslur. Þar getum við byrjað á hinni virðulegu fisktegund, steinbítnum, sem hefur löngum verið fisktegund sem Vestfirðingar hafa veitt meira en aðrir. Kvótarnir þar hafa verið á undanförnum árum 13 þús. tonn a.m.k. síðustu fjögur fiskveiðiár og ég held að sú fisktegund hafi ævinlega verið notuð í tegundartilfærslur.

Á síðustu tveimur fiskveiðiárum hefur verið notað af steinbítnum, sem var úthlutað 13 þús. tonnum í, tæp 3 þús. tonn á fiskveiðiárinu 1998--1999 í þessa tegundartilfærslu og rúm 2 þús. tonn á fiskveiðiárinu 1999--2000. Þessi fisktegund, steinbíturinn, er m.a. ein af þeim fisktegundum sem menn rífast nú um í smábátakerfinu og vilja fá að hafa frjálsar. Samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar hefur ekki veiðst upp í þessa fisktegund á undanförnum árum og ekki sýnilegt þess vegna hvers vegna fisktegundin ætti heima sérstaklega inni í kvótakerfinu. Allra síst ætti það að vera bundið í lögum um veiðar smábáta eins og nú er að steinbíturinn skuli inn í kvóta 1. september nk. þrátt fyrir það að tegundin hafi ekki veiðst að mörkum sínum undanfarin ár, þrátt fyrir það að Hafrannsóknastofnunin hafi haldið áfram að leggja til sömu kvóta og þrátt fyrir að í skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem gefin var út sl. vor komi ekkert fram, ekki ein einasta vísbending um að steinbíturinn sé í nokkurri hættu. Frekar allt á hinn veginn að steinbíturinn standi vel og það sé góð nýliðun og engin ástæða til þess að hafa sérstakar áhyggjur af þeirri fisktegund. Hún hefur samt verið notuð sem sérstök bankabók í tegundartilfærslu við að breyta og búa til fisktegundir eins og karfa og grálúðu sem menn hafa a.m.k. á undanförnum árum varðandi karfann verið frekar svartsýnir á að væri frekar ofnýttur en hitt. Fram að árinu 1998 gekk líka illa að veiða grálúðu og mönnum bar saman um að sá niðurskurður sem var gerður á grálúðunni á sínum tíma væri eðlilegur og reyndar höfðu fiskiskipstjórar lagt það til í nokkur ár áður en það var gert. En með sama hætti lögðu fiskiskipstjórar til að grálúðukvótinn væri aukinn eftir árið 1998. Í fyrra var síðan orðið við því í fyrsta sinn.

Steinbíturinn hefur sem sagt verið notaður til að auka veiði á þessum tveimur fisktegundum. Það er fyrst og fremst togaraflotinn sem nýtir karfastofninn og grálúðustofninn og að stærstum hluta frystitogaraflotinn og verður að telja það eðlilegt því að ég dreg í efa að mörg önnur fiskiskip geri meiri verðmæti úr þeim tegundum en t.d. frystitogaraflotinn hefur gert á undanförnum árum enda eru þetta djúpsjávartegundir og eðlilegt að frystitogaraflotinn beiti sér meira að þeim tegundum en kannski öðrum. Það var í raun og veru hugsunin varðandi skrapdagakerfið á sínum tíma þegar menn takmörkuðu veiðar í þorsk, hvert voru menn þá að ýta togurnum? Jú, þeir voru að ýta þeim út í karfann. Það var beinlínis tilgangur lagasetningarinnar með skrapdagakerfinu á sínum tíma að fækka veiðidögum í þorski til þess að fullnýta karfann sem Þjóðverjar voru þá að hverfa frá þegar þeir hurfu af miðunum upp úr 1977.

Auðvitað tókst prýðilega að veiða upp þessar fisktegundir og svo mjög að við höfum sjálfir með okkar öfluga flota gengið kannski heldur hart þar um garða. Þetta veit ég að menn muna en stundum hefur verið talað um að skrapdagakerfið hafi ekki náð markmiðum sínum en það náði einmitt þeim markmiðum að nýta togaraflotann til þess að fullnýta karfann og grálúðuna. Það var einn megintilgangur þess að færa togaraflotann í þær tegundir sem hann á vissulega að hafa forgang að til að nýta og hefur reyndar haft það í mörg ár og sennilega þær fisktegundir sem ekki er mikill ágreiningur um að togaraflotinn hafi forgang að til framtíðar að veiða karfann og grálúðuna ásamt fleiri djúpsjávarstofnum. Það er svo meiri ágreiningur um það hvort flotinn á að veiða tegundir sem liggja nær landinu og þess vegna er alveg sérstaklega ámælisvert að þær tegundir sem eru í raun og veru svokallaðar strandveiðitegundir eins og sandkoli, skrápflúra, steinbítur skuli svo vera settar í sérstaka bankabók sem stórútgerðir geta tekið út úr og safnað til sín kvótum jafnvel svo að þeir sem vinnsluna stunda á umræddum tegundum nái ekki til sín kvótum í lok fiskveiðiársins og þessi viðhorf komu m.a. fram í sjútvn.

Ein fisktegundin enn hefur reyndar mikið verið notuð í tegundartilfærslu. Það er ufsinn sem hefur á undanförnum árum þrátt fyrir litla kvóta verið notaður, yfirleitt um 1 þús. tonn af honum, til þess að framleiða aðrar fisktegundir. Þetta kemur allt fram á fylgiskjali með áliti meiri hlutans sem er fylgiskjal sem Fiskistofa hefur unnið upp miðað við 27. nóv. 2000 og þar sést þróunin alveg frá árinu 1992--1993. Ég ætla ekki að rekja það allt. Ég gerði það þegar ég mælti fyrir frv. fyrir rúmlega ári um tegundartilfærsluna og fór yfir þetta mál mjög gaumgæfilega hvernig tegundartilfærslan hefði verið notuð á undanförnum árum og áratugum.

Þau rök standa í raun og veru öll við flutning málsins hér og benda eindregið til þess að sú tegundartilfærsla sem er í lögunum sé óþörf og það sem meira er, hún sé óeðlileg og hafi verið misnotuð. Nú er kannski hægt að segja sem svo: Hvernig fara menn að því að misnota lög ef lögin heimila framsetninguna? Vissulega er alveg rétt að þetta ákvæði er í lögunum og útgerðin er ekki að gera annað en fara að þeim lögum. En það breytir ekki því að ég held að flestallir sem hafa skoðað þessi mál hafi á seinni árum litið svo á að tegundartilfærslan væri í raun og veru lagaákvæði sem gæfi kost á því að misfara með þann tilgang sem lögin kveða á um. Þess vegna held ég að mjög eðlilegt sé að tryggja að í framtíðinni verði fisktegundir sem ekkert hafa inni í kvótakerfinu að gera fari þaðan út en séu ekki einhver bankabók sem stórútgerðin tekur til sín. Þegar ekki lítur út fyrir að fisktegundin veiðist nái þeir að safna þessu til sín og noti síðan í restina á fiskveiðiárinu vegna þess að þeir séu þá búnir með aðrar fisktegundir. Þá gengur reglan einfaldlega þannig að þá gengur á þau þorskígildi sem menn eiga eftir og þar af leiðandi breytast tegundirnar sjálfkrafa í þær fisktegundir sem menn vilja sækja í.

Í áliti meiri hlutans og í frv. er reyndar eins og ég sagði áðan tekið á þessu að litlu leyti þannig að tegundartilfærslan mun sjálfsagt dreifast yfir á fleiri fisktegundir en verið hefur en það er sjónarmið mitt að þær fisktegundir sem notaðar hafa verið í þetta á undanförnum árum hafi verið misnotaðar og að óeðlilegt sé að svona ákvæði séu í lögunum. Þess vegna er niðurstaða mín að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls þegar greidd verða atkvæði um það.

Ég tel hins vegar að það sem verið er að gera sé örlítið spor í áttina en nái ekki þeim markmiðum sem ég hefði viljað sjá við þá lagfæringu sem hér er borin fram.

Ég held að ég hafi, herra forseti, fært nokkuð góð rök fyrir því hvers vegna ég tel ekki nógu langt gengið. En auðvitað er frv. nákvæmlega í anda hæstv. sjútvrh. sem ætlar að gera sáralitlar eða engar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.