Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:16:57 (5116)

2001-03-01 11:16:57# 126. lþ. 80.4 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Tegundartilfærsla eins og hefur komið fram hjá mörgum hefur um árabil verið misnotuð. Hún hefur ekki verið framkvæmd á þeim grunni sem til stóð, þ.e. að menn gætu í vissum tilfellum farið yfir í aðrar tegundir og átt sveigjanleika þar til þess að þurfa ekki að kasta afla fyrir borð. En eins og komið hefur fram í umræðunni hefur sá sveigjanleiki sem gefinn hefur verið í tegundartilfærslunni að langmestu leyti verið notaður til þess að búa til veiðiheimildir í aðrar tegundir og þá hafa sérstaklega verið nefnd til sögunnar karfinn og grálúðan sem hefur síðan leitt til þess að miklu meira hefur verið veitt úr þessum tegundum báðum og er sérstaklega karfinn nú kominn á hættumörk.

Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að afli hefur ekki náðst í veigamiklum tegundum og nú á tímum dýrum tegundum sem markaðurinn kallar eftir. Það eru flatfiskarnir sem þar um ræðir en tegundartilfærslan hefur leitt til þess að ekki hefur verið notaður nema u.þ.b. helmingurinn af þeim kvóta sem gefinn hefur verið út í tegundum eins og sandkola og skrápflúru. Þetta er náttúrlega afleit staða, að vegna einhvers kerfis, sem í þessu tilfelli er kerfið um tegundartilfærslu, sem býður upp á að breytt sé yfir í aðrar tegundir, þá náist ekki til vinnslu stórar og þýðingarmiklar og verðmætar tegundir sem eru dýrmætar fyrir útflutninginn og vinnsluna.

Ég vil taka það skýrt fram að ég hef efasemdir um að þessi tegundartilfærsla eigi að vera heimil en ég hef þó skrifað undir nál. ásamt meiri hlutanum með fyrirvara og vil hafa fyrirvarann á þessu að ég efast um að það sé réttlætanlegt að vera með tegundartilfærslu. Ég mundi vilja sjá hana falla brott og að gefinn væri út kvóti í tegundirnar hverja fyrir sig án þess að verið væri að gefa möguleika á því að fara þarna á milli. En með þessu frv. er lagt til að heimild til svokallaðrar tegundartilfærslu verði þrengd. Í tegundartilfærslum samkvæmt gildandi lögum felst að heimilt sé að veiða yfir aflamark í tiltekinni tegund botnfisks, allt að 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks, enda skerðist aflamark í öðrum tegundum botnfisks hlutfallslega miðað við reiknað verðmæti tegunda þorskígildisstuðla.

Upphaflegur tilgangur með slíku ákvæði var sá að skapa sveigjanleika í kerfinu þannig að síður kæmi til brottkasts þegar fisktegund fengist sem viðkomandi bátur hefði ekki aflamark í. Framkvæmdin hefur hins vegar orðið sú að heimildin hefur fyrst og fremst verið nýtt til að auka afla í eftirsóknarverðum tegundum og draga úr veiði á öðrum. Þess vegna er með frumvarpinu lagt til að heimildin verði takmörkuð þannig að aldrei verði heimilt að breyta meiru en sem nemur 2% af heildarbotnfiskskvótanum í hverja tegund. Eftir standa 3% sem nýtast í hinum upprunalega tilgangi ákvæðisins sem er að skapa sveigjanleika í kerfinu þannig að meðafla sé síður hent þegar fisktegund veiðist sem ekki er aflamark fyrir.

Virðulegi forseti. Ég vil árétta að ég tel að tillaga í nál. meiri hlutans sem ég hef skrifað undir með fyrirvara sé spor í rétta átt og þess vegna hef ég, miðað við þá stöðu sem uppi er hjá meiri hlutanum varðandi stjórn fiskveiða, talið að það væri rétt að skrifa undir nál. með fyrirvara. Spor í rétta átt segi ég og vil árétta það. Ég tel að við þyrftum að fara á róttækari hátt ofan í þessi mál. Það er náttúrlega forkastanlegt að byggja á kerfi sem leiðir til þess að kvótinn í veigamiklar tegundir, eins og ég kom inn á áðan, nýtist ekki. Það er kerfi sem ekki gengur upp. Það er hins vegar von mín að þessi þrenging niður í 2% leiði til þess að byggt verði á hugmyndinni sem er að baki tegundartilfærslunni, en tegundartilfærslan vegna þessarar þrengingar verði ekki eftir sem áður notuð til þess að misnota, og þá vil ég meina að misnotkunin sé sú að nota þennan sveigjanleika til þess að skapa sér kvóta í öðrum tegundum.