Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:31:23 (5118)

2001-03-01 11:31:23# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hlutans í því máli sem hér er þegar hafin umræða um, þ.e. litlu frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum.

Eins og hér kom fram í framsöguræðu formanns allshn. gerði hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir ágætlega grein fyrir því umhverfi sem þetta frv. er sett fram til að styrkja. Ég vil taka fram í upphafi máls að við sem stöndum að áliti minni hlutans höfum staðið að Schengen-samstarfinu að fullu en hins vegar höfum við ýmsar athugasemdir að því er varðar þetta tiltekna frv. og þær efnisreglur sem eru lagðar til. Því lýsum við yfir í þessu nál. að við treystum okkur ekki til að bera ábyrgð á því frv. sem hér er komið úr nefnd og til 2. umr. á hinu háa Alþingi.

Með frv. þessu eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegar vegna þátttöku Íslands í samstarfi á grundvelli þess samnings sem er liður í Schengen-samstarfinu. Í umræðum í nefndinni kom fram að mjög erfitt er að átta sig á því hvaða afleiðingar það hefur að samþykkja ákvæði eins og það sem hér er lagt til að verði bætt við lögin og hljóðar svo: ,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Í nefndinni var þess sérstaklega farið á leit að dómsmálaráðuneytið upplýsti með skriflegri greinargerð til nefndarinnar annars vegar hvað telst fyrsta hælisland og hins vegar hvaða vinnubrögð hafa tíðkast hingað til og hvernig ráðuneytið hugsar sér framhaldið að samþykktu þessu frv. Upplýsingum um þetta var hafnað í nefndinni. Það er því ljóst að minni hlutinn getur ekki tekið á sig þá ábyrgð að standa að samþykkt frv. sem honum hefur verið hafnað um að fá frekari útskýringar á. Til frekari skýringar á því hvað hér er átt við er rétt að vitna til þess sem fram kemur í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, en þar segir m.a.: ,,Dyflinnarsamningnum er, eins og fram kemur í greinargerð með frv., ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og koma í veg fyrir að hælisleitendur hringsóli á milli landa án þess að umsókn þeirra hljóti efnislega meðferð.

Við framkvæmd samkomulagsins hefur raunin orðið sú að með beitingu reglunnar sem sett er fram í 3. gr. 5. mgr. eru hælisleitendur sendir til þriðja ríkis sem hefur verið skilgreint sem ,,öruggt þriðja ríki``. Vandkvæðin við beitingu þessa ákvæðis eru þau að skilgreining á því hvað telst ,,öruggt þriðja ríki`` fer ekki eftir neinum tilgreindum reglum og er það því tilviljanakennt og ekki samræmi á milli þess hvað aðildarríkin hafa skilgreint sem ,,öruggt þriðja ríki``. Þetta hefur oft leitt til endursendingar til landa þar sem hælisleitendur fá ekki efnislega umfjöllun um umsókn sína og í sumum tilfellum hefur þetta haft í för með sér að hælisleitendur hafa verið endursendir til lands þar sem þeir hafa sætt ofsóknum og er því brot á banninu við endursendingu sem sett er fram í 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.``

Þarna kemur vel fram hversu miklu máli það skiptir hvernig Íslendingar skilgreina sjálfir fyrsta hælisland, hvort um er að ræða farþega sem millilenda eingöngu, transit-farþega, eða hvort um sé að ræða land þar sem viðkomandi hælisleitandi á fyrstu raunhæfu möguleikana á því að leita hælis. Upplýsingar um þetta reyndist ekki unnt að knýja fram á viðunandi hátt að mati minni hlutans og því erfitt fyrir hann að átta sig á því hvaða afleiðingar lögfesting reglna eins og þessarar hefur í för með sér. Með þetta að leiðarljósi vill minni hlutinn ekki bera ábyrgð á lögfestingu þessara reglna.

Virðulegi forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í nál., sem minni hlutinn hefur sent frá sér, þrátt fyrir að ekki séu margar línur í því frv. sem við ræðum hér, þá er það hins vegar þannig að þessi löggjöf er einhvers konar andlit sem við sýnum út í frá þegar hælisleitendur leita hingað til lands. Það er mjög óþægilegt fyrir okkur sem sitjum í minni hlutanum og höfum verið að reyna að afla upplýsinga um það hvernig framkvæmdin er á þessum lögum að hafa ekki fengið þær upplýsingar sem við óskuðum eftir.

Til að mynda var mjög erfitt að fá það fram hverjir möguleikar hælisleitenda til þess að áfrýja ákvörðun um brottflutning til annars ríkis er háttað. Það fengust nánast engin svör við því og það kom líka fram í umfjöllun í nefndinni að mannréttindaskrifstofan hefur t.d. lengi leitað eftir upplýsingum úr ráðuneytinu hvað þetta varðar og ekki orðið neitt ágengt.

Enn fremur er rétt að benda á það, virðulegi forseti, að við þann samning sem hér er vitnað til, þ.e. Dyflinnarsamninginn, hafa verið gerðar talsverðar athugasemdir, þ.e. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gert við hann talsverðar athugasemdir og óskað eftir því að hann sé framkvæmdur með ákveðnum hætti sem a.m.k. hingað til hefur ekki verið orðið við. Þrátt fyrir það að við sem stöndum að þessu minnihlutaáliti tökum fulla ábyrgð á því samstarfi sem Schengen-samstarfið er eins og við höfum gert hingað til, þá er það einfaldlega þannig, eins og ég sagði í upphafi, að við umfjöllun á þessu frv. kom fram að það er mjög erfitt að átta sig á því hvernig þessi löggjöf verður framkvæmd, hvaða efnisreglur munu verða leiddar af þessari löggjöf og því treystum við okkur ekki til þess að standa að því. Það var einfaldlega þannig í nefndinni að menn treystu sér ekki til að veita okkur þær upplýsingar sem við töldum nauðsynlegar og í því ljósi lýsi ég því yfir að við munum sitja hjá við afgreiðslu þessa frv.