Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:42:09 (5121)

2001-03-01 11:42:09# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:42]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka enn og aftur að þessum spurningum var að mínu mati svarað mjög vel og skilmerkilega á umræddum fundi allshn. En menn mega ekki rugla því saman hvað er að vera í rauninni flóttamaður og innflytjandi. Þetta er tvennt ólíkt. Hælisleitandi er hvort tveggja. Flóttamaður er m.a. hælisleitandi. Það geta líka innflytjendur verið. Ég vil meina að innflytjendastefna okkar Íslendinga sé afskaplega skýr og mjög góð að mínu mati. Hingað geta allir flutt sem fá atvinnu og fullnægja ákveðnum skilyrðum. Þetta er svo einfalt. Við tökum vel á móti fólki sem kemur hingað.

Hvað varðar málefni flóttamanna má segja að kjarni þeirrar stefnu sem hér ríkir sé að veita flóttamönnum sem hingað leita öruggt skjól. Stefnan er skýr. Það kom mjög skýrt fram á þessum fundi að við tökum vel á móti þessu fólki og aðstoðum það í hvívetna og við fullnægjum skuldbindingum okkar samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, Genfarsamningnum, og við gerum í rauninni enn betur en það. Ég vil m.a. benda á þá sem eru kallaðir kvótaflóttamenn sem hafa verið fluttir hingað inn og flytjast um allt land og er tekið mjög vel á móti þeim. Meðal annars hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýst yfir mjög mikilli ánægju með þá framkvæmd sem hefur verið hér á vegum flóttamannaráðs og hún er til mikillar fyrirmyndar, ég get t.d. nefnt stuðningsfjölskyldurnar á Dalvík.

Það sem ég á hins vegar erfitt með að skilja er --- af því að hér er í rauninni um að ræða samning sem er byggður á forsendum þess sem aðildarríki ESB gera og verður hluti af regluverki ESB --- að stjórnarandstaðan og sérstaklega Samfylkingin, herra forseti, er reiðubúin að kokgleypa vil ég meina fiskveiðistjórnarstefnu ESB en hún er ekki reiðubúin til að samþykkja að mínu mati löggjöf sem tryggir enn frekar rétt flóttamanna.