Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:44:34 (5122)

2001-03-01 11:44:34# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:44]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um eftirlit með útlendingum sem hefur ekkert að gera með sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Hins vegar hefur hún að hluta til að gera með stefnu sambandsins að því er varðar útlendinga.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að engin svör voru gefin við þeim spurningum sem voru dregnar fram. Hafi þessi svör komið fram þá komu þau a.m.k. ekki fram í þeim andsvörum sem hér voru. A.m.k. treysti hv. formaður allshn. sér ekki til að svara þessum spurningum að því er varðar þá flóttamenn sem koma hingað, ekki á vegum ríkisstjórnarinnar, ekki sem svokallaðir kvótaflóttamenn eins og hv. formaður allshn. nefndi hér, við erum að tala um þá einstaklinga sem koma hingað og þá meðferð sem þeir fá þegar þeir koma. Við fengum ekki neinar upplýsingar um það í nefndinni hvernig tekið væri á móti þeim, hvaða möguleika þeir hefðu á því að fá lögmenn, hvaða möguleika þeir hefðu á því að áfrýja ákvörðun um að senda þá brott hið snarasta o.s.frv. Við fengum engin svör við þessu og það er kjarni málsins. Á þessum forsendum treystum við okkur ekki til að bera ábyrgð á þessu frv. Það er einfaldlega þannig. Mér finnst það heldur létt í vasa þegar öll rök þrjóta og menn átta sig á því að þeir hafa lítið sem ekkert í farteski sínu að því er varnir varðar, að menn skuli þá flýja á náðir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og taka hana til umræðu eitthvað sérstaklega í umræðum um lítið frv. sem varðar breytingu á lögum um eftirlit með útlendingum.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég geri meiri kröfur til hv. formanns allshn. en að hlaupa svona léttvægt út úr umræðunni.