Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:46:41 (5123)

2001-03-01 11:46:41# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:46]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman þegar svolítið fjör færist í salinn. Það er spurning hvort fólk ætli að vera lengi í tveggja manna tali. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur mælt fyrir minnihlutaáliti okkar í allshn. og hefur verið í rökræðum við hv. formann allshn., Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Það sem er afar mikilvægt og er ekki alveg nógu skýrt er að við sjálf eigum að hafa mjög skýrar reglur, þær séu gegnsæjar og þær séu skriflegar. Það er fyrir það fyrsta sem ber að stefna að og að það sé eitthvað sem er uppi á borðinu og við sjáum það fyrir framan okkur. Það er síðan spurning hvort ekki ætti að ræða það í tengslum við útlendingafrv., hvort við ættum ekki að taka þessi mál upp þar og skoða ákveðnar viðbætur þar inn til þess að reyna að tryggja þetta.

Við eigum einnig að nýta okkur skilgreiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en hún hefur gagnrýnt Dyflinnarsamninginn og í rauninni kannski það sem hér fer fram. Orðalagið í þessu frv. var einnig mjög gagnrýnt, þ.e. þessi neikvæða nálgun á málinu. Þá var sagt að það væri eins í Noregi og það væri eins á hinum og þessum stöðum, en ég tel að við gætum unnið þetta mál aðeins áfram vegna þess að mikilvægast er að reyna að tryggja rétt þessa fólks þannig að skilgreiningin á öruggu þriðja ríki liggi algerlega fyrir og við séum ekki að senda fólk burt og láta það hringsóla milli landa.

Það fer vissulega tvennum sögum af því hvort við tökum vel á móti útlendingum eða ekki. Áhöld eru um það hvort það telst vera vel tekið á móti útlendingum að þeir séu eign atvinnurekenda og gangi þar á milli kaupum og sölum. Það er það fyrirkomulag sem við höfum hér. Það er sú stefna sem verið er að hætta við annars staðar. Það er eitthvað sem mér finnst við eigum að skoða og gera það í tengslum við útlendingafrv. en komið hefur fram að það sé afar erfitt þegar svona stór mál eru á mörgum stöðum, en það væri nefnilega mjög gott ef við fengjum atvinnumálin líka þar inn þannig að við fengjum í rauninni heildstætt og gott frv. sem tæki á öllum þessum hliðum þó að framkvæmdin gæti verið á þremur stöðum.

Þetta á ekki við um flóttamennina. Við tökum afskaplega vel á móti okkar kvótum. Við erum þar algerlega til fyrirmyndar og það er einmitt kosturinn við lítil samfélög, þau gera það að verkum að hægt er að vinna þetta afar vel, þannig að það er ekki spurning.

Hins vegar eru alltaf áhöld um þá sem koma á eigin vegum. Það er alltaf spurning hvernig við tryggjum rétt þeirra en það er líka afar mikilvægt. En mig langar aðeins til að benda það sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemdir við í þessum samningi sem við erum núna að taka að hluta til upp. Þar segir m.a. eða þeir tala mikið um að það verði réttlát og gegnsæ beiting reglna við framkvæmd og það er kannski það sem er mikilvægast númer eitt, tvö og þrjú, þannig að fólk viti hvar það stendur, hvaða rétt það hefur, rétt á aðstoð lögmanna o.s.frv. Þeir segja hér m.a., með leyfi forseta:

,,Vegna þessa er mjög mikilvægt að á öllum stigum í meðferð mála sé hælisleitendum eða lögmönnum þeirra tímanlega gefnar tæmandi upplýsingar um framkvæmd samningsins, einnig þær reglur sem geta leitt til þess að hælisleitandi er fluttur til annars aðildarríkis EB.``

Hins vegar fagnar Flóttamannastofnunin ákveðnum reglum þar sem kveðið er á um bæði hvað varðar endurskoðun, þannig að hælisleitandi geti farið fram á möguleika á endurskoðun, og ákvörðun varðandi ábyrgð á meðferð á hælisumsóknar.

Þeir fjalla jafnframt um hugtakið ,,öruggt þriðja ríki`` og það er eitt af markmiðum samningsins að tryggja að hælisumsókn sé tekin fyrir af a.m.k. einu aðildarríki og koma þannig í veg fyrir að hælisleitendur séu á hringsóli á milli aðildarríkjanna. Þetta er auðvitað það sem við viljum í rauninni hafa mjög skýrt hérna heima, að sé skriflegt og ákveðnar reglur séu um hvernig við túlkum þetta. Og þeir benda jafnframt á að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af því að þar sem ekki er fylgt ákveðnum viðmiðunum í því að ákvarða hvað telst öryggt þriðja ríki, geti beiting þessarar reglu af aðildarríki sem er ábyrgt við meðferð hælisumsóknar leitt til þess að hælisleitandi sé sendur land úr landi og það getur á endanum leitt til endursendingar til ríkis þar sem hælisleitandi sætir ofsóknum. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að við getum gert það, við getum vissulega gengið lengra en þessi lög segja til um, þ.e. verið skýrari, og þá finnst mér að við eigum að gera það.

Ég vænti þess þegar við höldum áfram vinnu við útlendingafrv. í hv. allshn. að við tökum það kannski örlítið til skoðunar hvar við getum í rauninni haft hlutina skýrari, þannig að hægt sé að beita þessu og þar með förum við kannski dálítið út úr þessari neikvæðu nálgun. En eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skýrði hér munum við sitja hjá að svo stöddu í þessu máli en tökum það til nánari umfjöllunar í stóra málinu í allshn.